Golf

McIlroy lætur reyna á meiddan ökkla

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rory á Opna bandaríska meistaramótinu fyrr í sumar.
Rory á Opna bandaríska meistaramótinu fyrr í sumar. Vísir/getty
Norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy mun ákveða með þátttöku sína á PGA-meistaramótinu eftir æfingarhring á vellinum sem mótið fer fram á laugardaginn. Rory gat ekki varið titil sinn á Opna breska meistaramótinu en virðist ætla að reyna að verja titil sinn á PGA-meistaramótinu.

Rory sem er í dag í efsta sæti styrkleikalistans í golfi lék frábært golf seinni hluta sumars á síðasta ári. Stóð hann uppi sem sigurvegari á tveimur stórmótum í golfinu í röð, Opna breska meistaramótinu og PGA-meistaramótinu.

Hann gat hinsvegar ekki varið titil sinn á Opna breska meistaramótinu í ár en hann sneri sig á ökkla er hann var að leika sér í fótbolta með vinum sínum. Skaddaði hann liðbönd í ökklanum og var talið að hann myndi missa af báðum stórmótunum sem eftir voru á árinu.

Hann virðist þó ekki vera tilbúinn að gefa upp alla von um að leika á PGA-meistaramótinu en fari svo að hann taki ekki þátt að þessu sinni gæti kylfingurinn ungi Jordan Spieth skotist upp fyrir hann á styrkleikalistanum. Umboðsmaður Rory vildi hvorki staðfesta né neita að hann myndi leika æfingarhring á Whistling Straits vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×