Sport

McEnroe fær borgað tíu sinnum meira en Navratilova sem er reið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martina Navratilova er ekki sátt.
Martina Navratilova er ekki sátt. Vísir/Getty
John McEnroe og Martina Navratilova eru tveir af frægustu tennisleikurum sögunnar og þau vinna nú bæði fyrir sér með því að fjalla um tennisíþróttina í sjónvarpi. Þau eru aftur á móti langt frá þvi að fá sömu laun fyrir sína vinnu.

Bæði McEnroe og Navratilova hafa fjallað Wimbledon mótið á BBC og nú er komið fram í dagsljósið að karlinn (McEnroe) er að fá tíu sinnum meira borgað en konan (Navratilova).

John McEnroe var einn af hæstlaunuðustu starfsmönnum BBC á síðasta ári með laun á bilinu 150 til 200 þúsund pund eða á bilinu 21 til 28 milljónir íslenskra króna.

Navratilova segist sjálf hafa fengið 15 þúsund pund eða rétt rúmar tvær milljónir íslenskra króna.





„Þetta er ótrúlega ósanngjarnt og gerir mig bálreiða fyrir hönd annarra kvenna sem þurfa að ganga í gegnum svona,“ sagði Martina Navratilova í viðtali við Panorama þátt á BBC sem heitir „Panorama: Britain's Equal Pay Scandal."

Navratilova er sérstaklega ósátt því forráðamenn BBC sögðu henni að þau væri að fá sömu laun fyrir vinnuna sína.

BBC segir talsverðan mun á vinnu þeirra og að hún sé ekki fastráðin, vinni minna en McEnroe og sé með öðruvísi samning.

„Það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman,“ var svar BBC við kvörtun Martinu Navratilovu.

Martina Navratilova vann átján risamót á ferlinum þar af vann hún Wimbledon mótið níu sinnum og komst alls tólf sinnum í úrslitaleikinn.

John McEnroe vann sjö risamót á ferlinum þar af vann hann Wimbledon mótið fjórum sinnum. Hann var þó enn þekktari fyrir skapofsa og deilur við dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×