Fótbolti

McClaren aðstoðar Viðar Örn og félaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve McClaren var síðast við stjórnvölinn hjá Derby County.
Steve McClaren var síðast við stjórnvölinn hjá Derby County. vísir/getty
Steve McClaren, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, hefur verið ráðinn til Maccabi Tel Aviv sem ráðgjafi knattspyrnustjórans Jordis Cruyff.

Landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson leikur með Maccabi og hefur gert frá því í fyrra.

McClaren hefur mikla reynslu af þjálfun. Hann var aðstoðarþjálfari Sir Alex Ferguson hjá Manchester United á árunum 1999-2001 og stýrði svo Middlesbrough í fimm ár.

McClaren tók við enska landsliðinu af Sven-Göran Eriksson eftir HM 2006. Hann var rekinn eftir að honum mistókst að koma Englandi á EM 2008.

McClaren tók því næst við Twente sem hann gerði að hollenskum meisturum 2010. McClaren hefur síðan þjálfað Wolfsburg, Nottingham Forest, Derby County og Newcastle United með takmörkuðum árangri.

Maccabi, sem endaði í 2. sæti ísraelsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, steinlá fyrir Beitar Jerusalem, 0-3, í fyrsta leik sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×