Sport

Mayweather bað þjálfara Pacquiao um að þjálfa Conor

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mayweather ætlar að láta þennan bardaga verða að veruleika.
Mayweather ætlar að láta þennan bardaga verða að veruleika.
Floyd Mayweather virðist vera full alvara með að berjast við UFC-stjörnuna Conor McGregor í hnefaleikabardaga.

Hinn goðsagnakenndi hnefaleikaþjálfari, Freddie Roach, hefur nú greint frá því að Mayweather hafi beðið sig um að þjálfa Conor fyrir bardaga.

Roach hefur meðal annars þjálfað Manny Pacquiao, Miguel Cottu og Julio Cesar Chavez.

„Ég hef heyrt orðróminn um að Conor hafi hringt í mig og beðið mig um að þjálfa sig. Sá orðrómur er ekki sannur. Mayweather kom aftur á móti til mín um daginn og bað mig um að þjálfa Conor,“ sagði Roach.

„Mayweather sagði við mig að það yrði af þessum bardaga og allir myndu fá mikinn pening.“

Roach er ekkert brjálæðislega hrifinn af þeirri hugmynd að Mayweather og Conor mætist í hnefaleikabardaga.

„Mayweather er besti hnefaleikmaður heims og ég held að hann myndi ekki tapa lotu gegn manni eins og Conor sem hefur litla reynslu,“ segir Roach.

„Conor lítur út fyrir að vera ágætis boxari og hann er frábær í MMA. Hann er í raun aðeins byrjandi í hnefaleikum og það tæki mig þrjú ár að gera hann tilbúinn í bardaga gegn manni eins og Mayweather.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×