Erlent

May gæti tekið við í Bretlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, innanríkisráðherra Breta
Theresa May, innanríkisráðherra Breta
Innanríkisráðherrann Theresa May, einn frambjóðenda í formannskosningum Íhaldsflokks Bretlands, hafnaði staðhæfingu andstæðinga sinna, Andreu Leadsom og Michaels Gove, um að komandi formaður þyrfti að hafa stutt Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. May var sjálf andvíg Brexit. Næsti formaður Íhaldsflokksins mun einnig taka við forsætisráðherraembættinu af David Cameron í haust.

May sagði í viðtali við BBC að forsætisráðherrann og formaðurinn þyrfti ekki að vera Brexit-sinni, mikilvægara væri að geta sameinað Breta eftir sundrandi þjóðaratkvæðagreiðslu. „Fólk er ekki bara að leita að Brexit-forsætisráðherra heldur forsætisráðherra sem getur stýrt landinu í heild sinni,“ sagði May við BBC.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun, sem birt var í síðustu viku, nýtur May stuðnings um 36 prósenta kjósenda Íhaldsflokksins. Aðeins einn annar frambjóðandi mælist með yfir tíu prósenta fylgi en það er Boris Johnson sem mælist með 27 prósent. Síðan könnunin birtist hefur Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, lýst því yfir að hann ætli ekki í framboð. Gerði hann það eftir að Gove hætti við að styðja hann og fór sjálfur í framboð. Þá tilkynnti Leadsom í gær að hún nyti stuðnings 50 þingmanna Íhaldsflokksins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí


Tengdar fréttir

Hörð barátta framundan um formennsku í breska Íhaldsflokknum

Veðbankar töldu þingmanninn og Brexit-sinnann Boris Johnson líklegastan en er Johnson tilkynnti um ákvörðun sína í gær sagði hann að næsti leiðtogi íhaldsmanna myndi þurfa að sameina flokksmenn og tryggja stöðu Bretlands í heiminum.

May og Gove taka slaginn

Tveir af helstu þungavigtarmönnum Íhaldsflokksins bjóða sig fram í formannskjöri flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×