Erlent

Maven komið á braut um Mars

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sævar Helgi Bragason og Maven.
Sævar Helgi Bragason og Maven.
Maven, könnunarfar bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA er komið á sporbaug um plánetuna Mars eftir tíu mánaða ferðalag. Könnunarfarið hefur verið á fleygiferð í átt að plánetunni síðustu mánuði og þegar það var komið í hæfilega fjarlægð var hægt á ferðinni þannig að þyngdarafl Mars næði tökum á því.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að tilgangur verkefnisins sé að kanna lofthjúp plánetunnar, en það hefur ekki verið gert áður.

„Þannig er að við vitum að lofthjúpur Mars var einusinni miklu miklu þykkari en hann er í dag. Við sjáum það út frá ummerkjum um rennandi vatn á yfirborðinu en hann hefur gengið í gegnum einhverjar rosalegar loftslagsbreytingar, það er að segja hann hefur þynnst mikið en við vitum ekki ástæðuna. Það er hlutverk geimfarsins að lesa aðeins út úr því. Lesa sögu lofthjúpsins hvernig hann hefur breyst og hvaða ferli var þar að baki.“

Sævar segir líklegt að sólvindar hafi feykt lofthjúpnum á Mars í burtu. „Markmiðið er því meðal annars að skera úr um það hve stórt hlutverk sólvindar hafa leikið í þessu. Og hvaða áhrif það hefur haft á hugsanlegan lífvænleika reikistjörnunnar.“

Sævar segir ennfremur að næsta árið hið minnsta muni geimfarið afla gagna á sporbaug sínum. Síðan taki við úrvinnsla gagna og sú vinna mun að hans sögn taka mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×