Innlent

Máttlaus í limnum í tvær vikur: Góður hjólabúnaður og réttar stillingar mikilvægar í langferðum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hjólreiðakeppnir hafa notið aukinna vinsælda hér á landi síðastliðin ár.
Hjólreiðakeppnir hafa notið aukinna vinsælda hér á landi síðastliðin ár. Vísir
„Hnakkur er ekkert bara hnakkur á reiðhjóli,“ sagði Hafsteinn Ægir Geirsson, hjólreiðamaður, en hann er sérfróður um hvernig skal útbúa sig fyrir langar hjólreiðaferðir. Félagarnir í Reykjavík Síðdegis fengu hann til þess að lýsa því hvernig hægt er að koma í veg fyrir að menn missi mátt í limnum eftir langan hjólreiðatúr.

Hann segist sjálfur aldrei hafa lent í þessu vandmáli. „Nei ég get ekki sagt það, að sjálfsögðu er til í dæminu að það myndist smá dofi í félaganum eftir langan hjólatúr. Oft er það lélegum búnaði um að kenna, annaðhvort lélegur hnakkur eða hnakkurinn illa stilltur – annaðhvort of hár eða of mikið framhallandi eða afturhallandi.“

Í þættinum kemur fram að maður nokkur sem hjólað hafði um 150 til 160 kílómetra hafi lent í því að missa mátt í getnaðarlim og í svæðinu í kring og að það ástand hafi varða í tvær vikur í það minnsta. Þvagfæraskurðlæknir sem rætt var við í gær sagði slíkt þó oftast ganga tilbaka.

Konur geta líka lent í vandamálum ef hjólið er rangt stillt.Vísir
Þrýstingsvandamál eiga einnig við um konur

„Við vitum af þessu en þetta er kannski ekkert vandamál þannig,“ sagði Hafsteinn.  Hann segir að hægt sé að koma í veg fyrir fyrrnefnt máttleysi með því að fá aðstoð sérfræðings og kynna sér búnaðinn vel. Hann hafi ekki fengið marga viðskiptavini til sín sem kvarta sáran undan máttlausum lim enda sé þetta kannski feimnismál og heyrir ef til vill undir lækna frekar. Hafsteinn er þó tilbúinn til þess að aðstoða hvern sem er þegar kemur að hjólastillingum.

„Oft er mikill misskilingur að þykkur og mikið bólstraður hnakkur sé málið en það er alrangt. Það er aðallega það að hnakkurinn þarf að vera í réttri breidd fyrir setbeinin á hverjum og einum þannig að maður mælir það sérstaklega. Síðan þarf hnakkurinn að vera í réttri hæð og halla rétt.“ Að sögn Hafsteins á hnakkurinn í raun að vera beinn.

Sjá einnig: Getnaðarlimur hjólreiðamanns getur lamast eftir langan hjólreiðatúr

Hins vegar spila fleiri þættir inní. Þar má nefna stærðina á hjólinu og klæðnað. „Hjólið getur verið of langt, hjólið getur verið of lítið, það eru allskonar pælingar í þessu.“

Klæðnaður er mikilvægur og þá nefnir Hafsteinn sérstaklega púðabuxur. „Þeir sem eru að hjóla langar vegalengdir verða að vera í sérstökum púðabuxum. Þessar púðabuxur eru til þess að mýkja svæðið og líka til að minnka núning á klofsvæðinu.“ Púðabuxurnar eru úr efni sem er sérstaklega mjúkt. Fleira er nefnt í þættinum svosem að vera ekki í nærbuxum innanundir spandex buxunum þar sem slíkt getur skapað ójafnan þrýsting.

Hafsteinn bendir á að lokum að konur þurfi allt eins og karlar að huga að réttum hnakki og stillingum, fyrrnefnd vandamál eigi alveg jafnmikið við um þær. „Kannski ekki risvandamál eða svoleiðis en þrýstingsvandamál eiga líka við um konur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×