Innlent

Mátti sjá fyrir að sambandið myndi enda með ósköpum

Jakob Bjarnar skrifar
Það var Hjörleifur sem á sínum tíma kom upp um framhjáhald Johns og Natalia, en þau störfuðu þá saman við kammersveit.
Það var Hjörleifur sem á sínum tíma kom upp um framhjáhald Johns og Natalia, en þau störfuðu þá saman við kammersveit.
Hjörleifur Valsson fiðluleikari þekkir vel John Martin kontrabassaleikara, sem grunaður er um að hafa myrt Nataliu Strelle konsertpíanista með hrottalegum hætti um helgina – og starfaði með þeim báðum og náið á sínum tíma. Klassíski heimurinn stendur á öndinni. Saga þeirra er hádramatísk. Hjörleifur starfaði með þeim þegar þau fóru að draga sig saman, Martin þá giftur maður og á börn með þeirri konu. Hjörleifur þurfti að velja, verandi fjölskylduvinur og hann ákvað að greina frá sambandinu. „Ég kom upp um hann.“ Þetta var árið 2012.

„Þetta er svakalegt,“ segir Hjörleifur í samtali við Vísi. „Ég fékk sjokk þegar ég heyrði þetta en um leið; ég get ekki sagt að þetta hafi komið beint á óvart, þá að þetta skyldi geta endað svona. Í rauninni ekki. Ég var alltaf hræddur um að þetta myndi enda hræðilega. Ég hef þekkt John Martin frá 1988 þegar ég var við nám í Osló. Hann var fyrsti félagi minn þar og þá og við spiluðum mikið saman þá.“

Hinn meinti morðingi Íslandsvinur

John Martin hefur komið í heimsókn til Íslands og bjó í nokkrar vikur hjá Hjörleifi og fjölskyldu hans, þá meðan hún var búsett á Íslandi á árunum 2000 til 2010 en Hjörleifur er nú búsettur og starfar í Noregi. Natalia kom hins vegar aldrei til Íslands.

Natalia var bóhem, að sögn Hjörleifs; skrautlegur karakter sem lifði hratt og gat vafið mönnum um fingur sér.
John Martin var yfirheyrður í morgun grunaður um að hafa myrt Natalia Strelchenko, sem einnig er þekkt sem Natalia Strelle en hún fannst á heimili þeirra Martins í New Heath í Manchester snemma að morgni síðasta sunnudags. Natalia var 38 ára gömul og þrátt fyrir lífgunartilraunir lést hún af miklum og mörgum áverkum á höfði. John Martin er 48 ára gamall, kontrabassaleikari og jafnframt umboðsmaður hennar, en Natalia fæddist í Rússlandi og var frammúrskarandi píanóleikari, jafnvel er talað um hana sem virtúós.

Hjörleifi er að vonum brugðið við tíðindin. „Við vorum með strengjakvartett og fórum þá að spila með Nataliu. Það var þá þegar hann fór að halda við hana. Við ferðuðumst um Noreg og ég starfaði náið með Nataliu einnig. John hefur alltaf verið svolítill skýjaglópur og óballanseraður, eða ekki í miklu jafnvægi. Ég var eiginlega hættur að vera í sambandi við þau. Fyrir einu og hálfu til tveimur árum hættum við að vera í sambandi.“

Hún bóhem og hann skýjaglópur

Hjörleifur segir að það hafi mátt sjá fyrir í hvað stefndi. „Þetta var stormasamt samband hjá þeim. Hún var mikill bóhem og ögrandi manneskja. Svakalegur píanisti. Hún var einleikari, kannski ekki heimsþekkt en vissulega þekkt í vissum kreðsum. Hann aftur á móti var aldrei mikill kontrabassaleikari. Hann menntaði sig sem slíkur en átti erfitt uppdráttar. Hann vann sem tölvufræðingur, við upplýsingatækni og var meira amatör bassaleikari,“ segir Hjörleifur.

Martin er ekki góður kontrabassaleikari, að mati Hjörleifs: Hann á við dulda skapgerðarbresti að stríða og mikill metnaður sem ekki hefur fengið útrás einkennir feril hans.
Fiðluleikarinn íslenski bendir á að það sem fram hefur komið varðandi það að John Martin væri mjög þekktur bassaleikari, það sé „algjör steypa. Hann var ekki þungavigtarbassaleikari, ætlaði sér að vera umboðsmaður og impressario, eða tónleikaskipuleggjandi. Það tókst ekki því hann hafði ekki karakterinn og duginn í það.“

Natalia og John draga sig saman

Hjörleifur segir að þau í kammersveitinni hafi með tíð og tíma áttað sig á því að eitthvað væri ekki sem skyldi; honum var haldið inni í sveitinni sem kontrabassaleikari á annarlegum forsendum. „Hann var veikasti hlekkurinn í samspilinu, en um leið lá það fyrirað þau tvö ætluðu sér mikla hluti, átti að leggja heiminn að fótum sér, búið að setja upp tvær heimasíður, átti að fara að bóka okkur á allskonar festivöl, tónskáld að semja fyrir okkur en það gerðist aldrei neitt. Þetta voru mjög komplex týpur sitt á hvorn hátt, flóknar. Hún var mjög skrautleg manneskja. Rosalegur bóhem, og lifði hratt. Og gat vafið mönnum um fingur sér og haldið þeim í greipum sínum.“

Þau fóru að vera saman í kringum þetta samspil og Hjörleifur varð vitni af öllum þeim aðdraganda, og það reyndist honum erfitt. Sú er í rauninni ástæðan fyrir því að hann dró sig út úr þessum félagsskap. „Mér þótti þetta óeðlilegt. Þessi klassíski heimur er og á bara að vera yndislegur og engin keppnisgrein.“

Gengdarlaus metnaður og skapgerðarbrestir

John Martin er maður sem á við verulega skapgerðarbresti að stríða að sögn Hjörleifs. „Ég var búinn að þekkja hann lengi og vissi að hann átti glímdi við paranoju og þunglyndi. Ég var hræddastur við að hann myndi gera eitthvað við einhvern annan en hana kannski. Hafði þetta alltaf á tilfinningunni að þetta ætti eftir að enda með ósköpum, kannski ekki þessum. Ég var hræddastur um að hann sjálfur myndi hverfa af yfirborði jarðar.“

Hjörleifur segir að hann hafi komið fyrir sem ljúfur og hress náungi. Í fyrstu. „Besservisser svolítill en um leið sveitamaður, kemur frá Túten, sveitahéraði miklu í Noregi. Sérstök fjölskylda sem að honum stendur. En hann virkaði léttur og skemmtilegur en átti sínar dökku hliðar sem við sem umgengumst hann mest á tímabili gátum ekki komist hjá að kynnast. Við ferðuðumst saman og það var oft ansi erfitt. Dimmt og drungalegt á köflum. En útá við gat hann komið fyrir sem léttur og skemmtilegur og hláturmildur. En hann ætlaði sér alltaf einhver ósköp. Ætlaði að vera með heimasíðugerð, mismunandi hljómsveitir við mismunandi tækifæri; harmonikkuböll í afdölum og uppí kammertónleika í Wigemor Hall í London. Svo gerðist aldrei neitt.“

Höfðu óttast um John Martin

Ekki er ofmælt að klassíski heimurinn allur standi á öndinni vegna þessara tíðinda. „Okkur er mjög brugðið. Að hún skuli vera farin og með þessum hræðilega hætti. Hún var styrkþegi við tónlistarháskólann í Osló á tímabili. Og mjög svona, í miklum tengslum við alla prófessora þar.  En, okkur, svona þessum sem þekkjum hann náið, höfum óttast um hann undanfarin ár. Erum meira flest sammála um, þó þetta sé hræðilegt nú þegar þetta gerist, ekki eitthvað sem kemur okkur þegar allt kemur til alls í opna skjöldu. Að sjálfsögðu eru örlög hennar hræðileg en tragedía í kringum Jón Martin er eitthvað sem við vorum búin að sjá fyrir.“

Hjörleifur segir að allir þeir sem þekktu þau tvö vel hafi óttast að hið stormasama samband myndi enda með ósköpum.
John Martin mun ekkert hafa tjáð sig um málið í yfirheyrslum, hann mun verða í gæsluvarðhaldi fram í nóvember og svo stendur til að rétta yfir honum í febrúar.

Efni í bíómynd

Hið stormasama samband, ástir og örlög Natalia og Johns hlýtur að teljast efniviður í bíómynd. Hjörleifur telur það blasa við. „Hún gat haldið mönnum í greipum sér gjörsamlega og snúið þeim. Sumar sögurnar eru svo ótrúlegar að það er varla að ég geti sagt frá þeim. Ævintýralegt þegar þau tóku sig til og vildu skipuleggja tónleikaferð til útlanda og við mættum öll á hótel, áttum að spila tónleika um kvöldið í stórborg. Við vissum ekki hvar þau voru, og við vorum ekki með bókað herbergi. Það hafði farist fyrir að bóka það. Við mættum samt og spiluðum,“ segir Hjörleifur Valsson fiðluleikari, sem vitaskuld fylgist með framvindu þessa skelfilega máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×