Enski boltinn

Matip verður heldur ekki með Liverpool í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kamerúnmaðurinn Joel Matip verður ekki í leikmannahópi Liverpool í kvöld þegar liðið mætir Plymouth Argyle í endurteknum leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.

Matip var ekki í hópi þeirra leikmanna Liverpool liðsins sem mættu á John Lennon flugvöllinn í morgun og flugu suður til Plymouth. Sky Sports segir frá.

Liverpool hefur ekki fengið það staðfest frá FIFA eða kamerúnska knattspyrnusambandinu hvort að félagið megi hreinlega nota Joel Matip í leikjum sínum.

Joel Matip er aðeins 25 ára gamall en hann ákvað árið 2015 að hætta að gefa kost á sér í landslið Kamerún. Hann var ekki valinn í hóp Kamerún fyrir Afríkukeppnina sem stendur nú yfir í Gabon.

FIFA skyldar félögin að sleppa sínum leikmönnum svo afrísku landsliðið geta nota þá í Afríkukeppninni. Nú er bara spurningin um hvernig það er með leikmenn sem gefa ekki kost á sér í landsliðið sitt.

Liverpool hefur ekki fengið skýr svör um það hvort að félagið geti spilað Joel Matip á meðan Afríkukeppnin er í gangi og því tók félagið þá ákvörðun að láta hann ekki spila fyrr en það kemst á hreint.

Joel Matip var ekki með Liverpool-liðinu í 1-1 jafntefli á móti Manchester United um helgina.

FIFA mun fara yfir málið á föstudaginn og þá ætti það að koma í ljós hvort Matip megi spila.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp bjóst við því á blaðamannafundi í gær að það gæti tekið sjö til tíu daga að klára þetta mál.

Leikur Plymouth Argyle og Liverpool verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.40.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×