Fótbolti

Materazzi ennþá að stríða Zidane tíu árum síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Materazzi liggur í grasinu eftir skalla Zidane
Materazzi liggur í grasinu eftir skalla Zidane Vísir/Getty
Ítalinn Marco Materazzi vann næstum því alla titla í boði á sínum ferli en hans verður samt alltaf þekktastur fyrir það að Frakkinn Zinedine Zidane skallaði hann í brjóstkassann í úrslitaleik HM í Þýskalandi 2006.

Zinedine Zidane fékk rauða spjaldið fyrir „skallann“ í leik sem var hans síðasti á ferlinum. Zidane missti algjörlega stjórn á sér og réðst á Ítalann eins og naut í nautaati.

Materazzi og félagar í ítalska landsliðinu tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í vítakeppni en Zinedine Zidane hafði skorað úr víti í úrslitaleiknum áður en hann var rekinn í sturtu.

Marco Materazzi vill greinilega ekki að þetta atvik falli í gleymskunnar dá og hefur bæði farið í viðtal í tilefni af tíu ára „afmælinu“ sem og að hann heldur áfram að stríða Zinedine Zidane á samfélagsmiðlum.

Marco Materazzi hefur staðfest það sem hann talað um við Zinedine Zidane.

„Ég talaði við hann um systur hans en ekki ekki um móður hans eins og blöðin skrifuðu um. Móðir mín dó þegar ég var fimmtán ára og ég hefði aldrei getað hugsað mér um að segja eitthvað um móður hans,“ sagði Marco Materazzi í viðtali við franska blaðið L'Équipe.

Marco Materazzi varð fimm sinnum ítalskur meistari með Internazionale og þá vann hann einnig Meistaradeildina 2010 og heimsmeistarakeppni félagsliða 2010.

Nýjasta færsla Materazzi á Instagram-síðu hans snýst um þetta heimsfræga atvik á Ólympíuleikvanginum í Berlín fyrir tíu árum síðan.

Materazzi hefur bætt aðeins í stríðnina með því að nota nýja listræna útfærslu á atvikinu þar sem hann er látinn halda á heimsmeistarabikarnum á saman tíma og Zidane skallar hann.

Það er hægt að sjá nýja færslu Materazzi hér fyrir neðan.

Tanto per .......... #2006/2016 #10anni #lodola #miocugino #berlino2006 #space23 @space23it

A photo posted by Marco Materazzi (@iomatrix23) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×