Enski boltinn

Mata tryggði United jafntefli í fyrsta leiknum í Ameríkuferðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Juan Mata fagnar með félögum sínum.
Juan Mata fagnar með félögum sínum. vísir/getty
Manchester United byrjaði æfingaferð sína um Ameríku á jafntefli gegn mexíkóska liðinu Club America í nótt en leikurinn fór fram á heimavelli NFL-liðsins Arizona Cardinals.

Mexíkóarnir komust yfir með marki Henry Martin á 60. mínútu eftir að jafnt var í hálfleik en Spánverjinn og Íslandsvinurinn Juan Mata jafnaði metin á 78. mínútu. Lokatölur, 1-1.

Enski markvörðurinn Lee Grant var eina nýja nafnið á leikskýrslu Manchester United í leiknum en hann verður í baráttu við David De Gea og Sergio Romero í vetur.

Grant stóð sig vel í leiknum og varði meðal annars nokkuð vel úr góðu færi Club America í fyrri hálfleik.

Næst mætir United MLS-liðinu San Jose Earthquakes á Levis-vellinum í San Francisco 22. júlí og svo er það leikur við AC Milan á StubHub-Center 25. júlí en það er heimavöllur Zlatans og félaga í Los Angeles Galaxy.

United lýkur ferðinni með leik á móti Liverpool 28. júlí á Michigan-vellinum þar sem má svo búast við ríflega 100.000 áhorfendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×