Enski boltinn

Mata: Herrera er fullkominn miðjumaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ander Herrera í leik með United í Bandaríkjunum.
Ander Herrera í leik með United í Bandaríkjunum. vísir/getty
Juan Mata, leikmaður Manchester United, er ánægður með komu samlanda síns, AndersHerrera, til félagsins, en hann hefur farið vel af stað á undirbúningstímabilinu.

Baskinn sem United keypti frá Athletic Bilbao fyrir tæpar 30 milljónir punda kom að fimm af sjö mörkum Manchester United í 7-0 sigrinum á LA Galaxy í vikunni og átti prýðilegan leik á móti Roma í Denver um helgina.

„Hann er mjög, mjög góður,“ sagði Mata við blaðamenn eftir 3-2 sigurinn á Roma á laugardaginn þar sem United komst í 3-0 í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá WayneRooney og einu frá Mata sjálfum.

„Ander er góður strákur. Hann er vinur minn, við höfum þekkst frá því við vorum 15 ára. Hann er gæða leikmaður sem getur bæði spilað hægt og hratt og stýrt hraða leiksins.“

Herrera átti gott skot af 25 metra færi á móti Galaxy sem var naumlega varið yfir, en Mata segir að hann geti skilað nokkrum mörkum.

„Hann getur líka skorað. Hann er bara fullkominn miðjumaður sem kemur með mikil gæði inn í liðið. Ég nýt þess að spila með gæða leikmönnum eins og honum og Wayne Rooney. Við viljum spila svipaðan fótbolta,“ segir Juan Mata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×