Fótbolti

Masuluke um markið sitt sem fór á flug á netinu: Ég er enn í sjokki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Suður-afríski markvörðurinn Oscarine Masuluke skoraði á dögunum eitt flottasta mark ársins þegar hann bjargaði stigi fyrir lið sitt í á sjöttu mínútu í uppbótartíma.

Markið kemur of seint til að koma til greina sem eitt af mörkum ársins hjá FIFA verður örugglega tilnefnt til Puskas-verðlaunanna á næsta ári.

Baroka, lið Oscarine Masuluke, var að spila á heimavelli á móti risunum og nágrönnunum í Orlando Pirates. Fimm mínútum var bætt við og þær voru svo gott sem liðnar þegar Baroka fékk horn.

Hornið var það síðasta sem gerðist í leiknum og hinn 23 ára gamli Oscarine Masuluke hljóp fram til að reyna að ná í stigið.

Leikmenn Orlando Pirates náðu að skalla boltann frá og var að skoppa út úr teignum þegar Oscarine Masuluke hljóp hann uppi og skoraði með stórkostlegi hjólahestaspyrnu.

Markið var frábært og ekki voru fagnaðarlætin síðri hjá Oscarine Masuluke sem var tilbúinn með sinn dans.

Oscarine Masuluke spilaði sem framherji þangað til að hann var sextán ára gamall og var greinilega ekki búinn að gleyma því hvernig á að afgreiða boltann í markið.

„Ég er enn í sjokki,“ sagði Oscarine Masuluke við The Independent. „Þegar ég vaknaði daginn eftir þá var ég enn hissa og ég trúi því ekki enn að þetta hafi gerst,“ sagði Masuluke.

„Þetta er ekki eitthvað sem ég æfi. Þetta var bara ákvörðun sem ég tók á þessari stundu. Sem betur fer gekk þetta upp. Þetta var frábært,“ sagði Oscarine Masuluke.

Hörður Magnússon sýndi markið í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær og það má sjá þetta ótrúlega jöfnunarmark  í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×