Körfubolti

Marvin: Ég veit að ég get skotið þessu skoti og hef gert það áður í þessu húsi

Árni Jóhannsson í TM-höllinni í Keflavík skrifar
Marvin var betri en enginn á lokakaflanum.
Marvin var betri en enginn á lokakaflanum. vísir/anton
Marvin Valdimarsson var hetja Stjörnumanna í fyrri framlengingunni gegn Keflavík þegar hann jafnaði metin þegar örfáar sekúndur voru eftir. Hann var spurður að því hvort gaman væri að koma í Keflavík og vísað í gamalt dægurlag.

„Já, við elskum að vera hérna. Þetta er skemmtilegt íþróttahús með mikla hefð og eins og flestir vita þá er mikill rígur milli liðanna sem nær langt aftur og ég held hreinlega að þetta séu skemmtilegustu viðureignirnar, þetta er þvílíkt stríð.“

Marvin var svo spurður að því hvað færi í gegnum huga manns þegar boltanum er kastað upp í loftið í von um að setja hann niður og jafna metin í háspennuleik.

„Það er bara sjálfstraust, ég veit að ég get skotið þessu skoti og hef gert það áður í þessu húsi ásamt því að vilja ofboðslega að hitta. Sem betur fer fór hann ofan í. Þetta hefði getað fallið báðum megin en við lentum í skakkaföllum þar sem Tómas Heiðar, okkar jafnbesti leikmaður misstígur sig og Shouse er ekki nógu góður eftir höfuðhöggin og brunað var með hann í bæinn. Við náðum samt að þjappa okkur saman og berjast og ná muninum til baka og það tókst sem betur fer.“

„Við erum í bullandi séns á fyrsta sætinu. Við þurfum nú að ná okkur aftur upp eftir tvo slæma leiki á móti liðum í neðri hlutanum og eigum KR eftir úti. Að sjálfsögðu ráðumst við að fyrsta sætinu,“ sagði Marvin að lokum þegar hann var spurður að því hvernig hann sæi mótið þróast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×