Körfubolti

Martin stigahæstur í grátlegu tapi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson skoraði 21 stig í kvöld.
Martin Hermannsson skoraði 21 stig í kvöld. vísir/anton brink
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í franska B-deildarliðinu Charleville Mézieres töpuðu á grátlegan hátt, 74-70, á heimavelli fyrir Fos-Sur-Mer í kvöld.

Charleville var í fínum málum fyrir lokafjórðunginn. Heimamenn voru 61-57 yfir en gestirnir voru sterkari á endasprettinum og innbyrtu góðan sigur á útivelli.

Martin og félagar voru í sókn þegar 15 sekúndur voru eftir og staðan jöfn, 70-70. Martin lagði upp ágætt skotfæri fyrir félaga sinn sem brenndi af og gestirnir óðu upp hinum megin og skoruðu, 72-70.

Charleville fékk aðra sókn þegar níu sekúndur voru eftir en heimamönnum tókst ekki að jafna metin. Þeir komu Fos-Sur-Mer á vítalínuna og þar gengu gestirnir frá leiknum, 74-70.

Martin átti stórleik og skoraði 21 stig en hann var stigahæstur í sínu liði. Næstu menn skoruðu þrettán stig. Martin hitti úr fjórum af sjö skotum í teignum, tveimur af þremur fyrir utan þriggja stiga línuna auk þess sem hann hitti úr sjö af átta vítaskotum sínum.

Þetta er fyrsta tap Charleville á leiktíðinni en það vann fyrstu tvo leiki sína í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×