Körfubolti

Martin og Elvar gætu misst af EM í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson var í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu í ár.
Martin Hermannsson var í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu í ár. Vísir/Vilhelm
Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson, tveir af efnilegustu körfuboltamönnum landsins, eru á sínu fyrsta ári með LIU Brooklyn háskólanum en þeir gætu þurft að taka stóra ákvörðun næsta haust.

Íslenska landsliðið tryggði sér sæti á EM í körfubolta í fyrsta sinn með frábærri frammistöðu sinni í undankeppninni í röð og framundan er sögulegt haust.

Sindri Sverrisson ræddi við Keflvíkinginn Fal Harðarson í Morgunblaðinu í morgun en hann er fyrrverandi landsliðsmaður og lék á sínum tíma í bandaríska körfuboltanum.

Sindri spurði Fal út hvort það gæti orðið erfitt fyrir strákana að fá leyfi frá LIU Brooklyn háskólanum til að spila á EM en þeir eru þar á fullum skólastyrk.

„Fyrsta svarið er já. Ég veit ekki hvort hægt verður að semja eitthvað um þetta. Vitandi það hvernig Bandaríkin líta á umheiminn þá efast ég um að mikið tillit sé tekið til Evrópumóts landsliða," segir Falur svartsýnn en bætir svo við:

„Svo er líka annar punktur í þessu. Hvað eru strákarnir sjálfir tilbúnir að gera? Þeir eru í samkeppni innan síns liðs og vilja þeir þá fara í burtu í 3-4 vikur til að spila fyrir landsliðið og missa af tíma til að berjast um stöðu í sínu liði? Það eru alltaf tvær hliðar á þessu," sagði Falur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×