Körfubolti

Martin fékk sín fyrstu verðlaun sem leikmaður LIU

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson
Martin Hermannsson Mynd/Heimasíða LIU Brooklyn
Martin Hermannsson er búinn að fá sín fyrstu verðlaun sem leikmaður LIU Brooklyn háskólaliðsins en hann var valinn besti nýliði vikunnar í NEC-deildinni í bandarísku háskóladeildinni.

Martin Hermannsson var með 17,0 stig, 4,0 fráköst, 4,0 stoðsendingar og 3,5 stolna bolta að meðaltali í leikjum LIU í vikunni en hann nýtti 50 prósent skota sinna utan af velli og 85 prósent vítanna.

Martin var stigahæstur í báðum leikjum LIU Brooklyn, skoraði fyrst 13 stig í 74-69 tapi á móti Bryant á fimmtudaginn og fylgdi því eftir með því að skora 21 stig, stela 5 boltum, taka 4 fráköst og gefa 4 stoðsendingar í 80-76 sigri á FDU.

Martin skoraði 18 stig í seinni hálfleiknum í þessum spennuleik þar af ellefu stig LIU í röð á einum tíma.

Martin Hermannsson er þriðji leikmaður LIU Brooklyn sem fær þessi verðlaun í vetur en áður höfðu þeir Nura Zanna og Elvar Már Friðriksson verið verðlaunaðir fyrir flotta frammistöðu.

Martin er þessa stundina annar stigahæsti leikmaður LIU Brooklyn háskólaliðsins og jafnframt fjórði stigahæsti nýliði NEC-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×