Enski boltinn

Marriner spjaldaglaðastur í ensku úrvalsdeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andre Marriner með gula spjaldið á lofti.
Andre Marriner með gula spjaldið á lofti. vísir/getty
Andre Marriner var sá dómari sem gaf flest spjöld að meðaltali í leik á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en mun færri gul og rauð spjöld fóru á loft á tímabilinu 2015/2016 en leiktíðinni þar á undan.

Þetta kemur fram á vef Sky Sports en í heildina fóru 1.186 gul spjöld á loft á síðustu leiktíð og 59 rauð spjöld. Það er rétt tæplega 200 færri gulum spjöldum en tímabilið 2014/2015 þegar dómararnir gáfu 1.361 gul spjöld. Rauðu spjöldin voru 71 það tímabilið.

Af þeim dómurum sem dæmdu fimmtán leiki eða fleiri var Marriner spjaldaglaðastur en hann gaf að meðaltali 3,58 spjöld í leik. Michael Oliver (3,53), Anthony Taylor (3,48) og Martin Atkinson (3,44) voru næstir á eftir honum.

Mike Dean lyfti flestum rauðum spjöldum en hann dæmdi líka fleiri leiki en nokkur annar dómari í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð eða 33 talsins.

Dean gaf níu rauð spjöld á síðustu leiktíð eða 0.27 í leik. Hann var rétt á undan Jonathan Moss (0,24), Neil Swarbrick (0,22) og Andre Marriner (0,21).

Lee Mason var sá dómari sem gaf fæst gul sjöld en hann reif gula kortið upp ekki nema 56 sinnum í 22 leikjum sem gerir 2,54 gul spjöld í leik.

Fyrrverandi úrvalsdeildardómarinn Dermot Gallagher er ánægður með að spjöldunum hefur fækkað og segir góða ástæðu vera fyrir því.

„Þetta eru góðar fréttir. Þetta sýnir að dómararnir eru í betri samskiptum við leikmennina. Það hefur hjálpað dómurunum að fyrirliðarnir ræði við þá fyrir leik. Það kemur öllum á sömu bylgjulengd,“ segir Dermot Gallagher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×