Enski boltinn

Markovic og Moreno verða í hóp á mánudaginn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Markovic var sprækur í eina leik sínum fyrir Liverpool hingað til.
Markovic var sprækur í eina leik sínum fyrir Liverpool hingað til. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Lazar Markovic og Alberto Moreno yrðu báðir í leikmannahóp Liverpool í stórleik liðsins gegn Manchester City á mánudaginn.

Markovic sem gekk til liðs við Liverpool frá Benfica fyrr í sumar lék aðeins 45 mínútur á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla. Í tilfelli Moreno náðist ekki að ganga frá félagsskiptunum í tæka tíð um síðustu helgi og sátu þeir því í stúkunni í 2-1 sigri Liverpool á Southampton.

„Þeir koma báðir inn í hópinn. Markovic hefur verið frábær á æfingum undanfarna daga og hefur lagt hart að sér í endurhæfingunni síðustu vikur og Moreno er í frábæru ástandi og er tilbúinn að spila. Moreno gefur okkur vonandi meira jafnvægi með vinstri fætinum sínum og þrátt fyrir að vera ungur er hann vanur að spila stóra leiki,“ sagði Rodgers sem sagði að það væri stutt í að Adam Lallana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið.

„Hlutirnir líta vel út með Lallana, hann verður fljótlega tilbúinn til þessa að spila en hann verður ekki í hóp á mánudaginn. Hann hefur æft með styrktarþjálfurum undanfarnar vikur en hann þarf bara að fá að spila einhverjar mínútur í leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×