Körfubolti

Leggja niður meistaraflokk kvenna: „Markmiðið er að hlúa betur að stelpunum okkar“

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Frá leik Tindastóls síðasta vetur.
Frá leik Tindastóls síðasta vetur. Vísir/Stefán
„Þetta mál er alveg óskylt peningum, það liggja aðrar ástæður þarna á baki,“ sagði Stefán B. Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, aðspurður að því afhverju væri verið að leggja niður meistaraflokk kvenna hjá félaginu.

Málið hefur vakið mikla athygli og gengur um vefinn mynd þar sem velt er upp fyrir sér spurningunni hver skilaboðin séu með þessu á meðan verið sé að styrkja meistaraflokkslið karla með erlendum þjálfara og erlendum leikmönnum.

Myndin umrædda sem gengur um á netinu.
„Það kemur ekki fram í þessari mynd að við erum að stofna unglingaflokk fyrir stelpur á aldrinum 18-20 ára. Stelpurnar sem eru að spila í liðinu eru allar undir tvítugu og þetta er tímabundið verkefni til að hlúa betur að stelpunum okkar. Þær verða í góðum höndum hjá Harri Mannonen sem þjálfari að stjórna unglingaflokki kvenna,“ sagði Stefán sem hefur lent í sömu vandræðum og forráðamenn annarra landsbyggðaliða að erfitt er að fá leikmenn til liðs við sig.

„Það gengur illa og frá því að við settum meistaraflokk kvenna af stað fyrir tveimur árum hafa átta stelpur farið frá okkur. Markmiðið er að vera aftur með meistaraflokk kvenna eftir nokkur ár en eins og staðan er í dag erum við of fámenn og stelpurnar eru bara of ungar. Liðin í fyrstu deildinni eru að styrkja sig, eitthvað sem við höfum reynt en það hefur bara ekki gengið að fá leikmenn hingað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×