Fótbolti

Markaveisla hjá Messi-lausu Barcelona-liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro Rodríguez fagnar einu marka sinna í kvöld.
Pedro Rodríguez fagnar einu marka sinna í kvöld. Vísir/AFP
Barcelona er komið í sextán liða úrslit spænska Konungsbikarsins eftir 8-1 stórsigur á C-deildarliðinu SD Huesca. Barcelona vann því samanlagt 12-1.

Pedro Rodríguez fékk tækifærið í framlínu Barcelona og nýtti tækifærið vel með því að skora þrennu á 24 mínútna kafla í fyrri hálfleiknum.

Barcelona var í fínum málum eftir 4-0 útisigur í fyrri leiknum en Pedro skoraði eitt mark mörkum liðsins í þeim leik.

Lionel Messi fékk hvíld í kvöld alveg eins og félagar hans í sóknarlínunni Luis Suarez og Neymer en það skipti ekki miklu máli fyrir Barcelonaliðið sem var komið í 5-0 í fyrri hálfleiknum.

Pedro Rodríguez skoraði fyrsta markið með skalla á 20. mínútu eftir sendingu frá Munir og sex mínútum var Pedro búinn að skora aftur eftir að hafa tekið sendingu Andrés Iniesta vel með sér.

Sergi Roberto skoraði þriðja markið á 29. mínútu eftir fyrirgjöf frá Martín Montoya og á 39. mínútu var komið að Andrés Iniesta efirr sendingu frá Sergi Roberto.

Pedro innsiglaði þrennuna sína á 44. mínútu eftir að hafa fengið boltann frá Adriano. Hann var fyrsti Barcelona-maðurinn frá árinu 1968 til þess að skora þrennu í fyrri hálfleik í bikarleik.

Pedro Rodríguez og Andrés Iniesta fóru af velli í hálfleik en Barcelona bætti við þremur mörkum í seinni hálfleiknum. Adriano Correia, Adama Traoré og Sandro Ramírez skoruðu þessi mörk.

Carlos David minnkaði muninn fyrir SD Huesca þegar hann skoraði á 86. mínútu og lokatölurnar urðu því 8-1.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×