Innlent

Markaðssetning Securitas vekur ótta á Suðurlandi

Jakob Bjarnar skrifar
Hjörtur Freyr segir tilganginn ekki hafa verið þann að hræða fólk en sumum var þó brugðið þegar þeim barst bréfið.
Hjörtur Freyr segir tilganginn ekki hafa verið þann að hræða fólk en sumum var þó brugðið þegar þeim barst bréfið.
„Það er ónotaleg tilfinning að sjá að einhver hefur rifið upp og lesið bréfin til manns. Það er ekki síður ónotaleg tilfinning að koma inn á heimili sitt og uppgötva að þar hefur einhver ókunnugur farið um, rótað í hirslum, skemmt eigur manns og skilið nánast allt eftir í rúst. Ráðist hefur verið inn í einkalíf þitt og þér gæti liðið eins og einhver hafi tekið hluta af þér. Flestum reynist mun erfiðara að kljást við þá tilfinningu en þá staðreynd að einhver hafi stolið efnislegum verðmætum.“

Svo hefst bréf sem íbúum á Suðurlandi hefur borist frá öryggisfyrirtækinu Securitas, og hefur það fallið í misjafnlega grýttan jarðveg.

Viðbjóðsleg markaðssetning

Svo virðist að boðskapurinn hafi komið illa við ýmsan manninn og þannig hefur mynd af bréfinu verið birt á Facebook og Securitas ekki vandaðar kveðjurnar. Sigurður Ástgeirsson birtir mynd af bréfinu á Facebooksíðu sinni og tengir við Securitas á Facebook. Hann segir:

„Að banka laust kl. 10 að morgni, í stað þess að dingla bjöllu, þegar konan er heima og snögglega renna þessari viðbjóðslegu markaðssetningu inn um lúgu er fyrir neðan ykkar virðingu tel ég. Þetta er án efa eitt það sóðalegasta markaðsátak sem ég hef augum litið.“ Sigurður vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Vísir leitaði eftir því. En, stöðufærslu hans hefur verið deilt á Facebook auk þess sem nokkrir eru til að taka í sama streng. Þannig segir til dæmis Sveinbjörn Ingi Grímsson að markaðstækni sem „elur á hræðslu til að kalla eftir auknu öryggi er svolítið eins og að ala börn upp við guðshræðslu. Brennir kertið á röngum enda. Sumarbústaða sjónvarpsauglýsingin var rétt nálgunin, en þetta bréf fengi mig frekar til að hringja í Öryggismiðstöðina.“

Ekki ætlunin að hræða fólk

Hjörtur Freyr Vigfússon er markaðsstjóri hjá Securitas sem hann segir til að vekja sérstaka athygli á því að Securitas var að opna skrifstofu á Selfossi og þannig tvöfalda þjónustu sína á svæðinu. Hjörtur Freyr segir að ávallt séu viðbrögð við auglýsingum og markaðssetningu og þau geti reynst blendin. Oftast góð en þetta sé einstaklingsbundið. Hjörtur Freyr hefur nú verið hjá Securitas í þrjú ár og þannig hefur það alltaf verið. Við því sé að búast vegna eðlis starfseminnar. „Bréfið endar á því að við vekjum sérstaklega athygli á því að bréfið var opnað af okkur sjálfum til að vekja athygli á inntaki þess.“

Hjörtur Freyr segir það skýra stefnu hjá fyrirtækinu að keyra ekki á hræðsluáróðri í markaðsstarfi. „En, menn upplifa sitt umhverfi á mismunandi máta, og ef þetta hefur hrætt einhvern þá getum við ekki annað en beðist afsökunar á því. Ég ber ábyrgð á þessum markpósti, og ef það er eitthvað sem við gerum í okkar auglýsingum og markaðsmálum sem stuðar fólk, þá biðjumst við innilega afsökunar á því. Það er ekki tilgangurinn með þessum auglýsingum að hræða fólk heldur vekja til umhugsunar. Tilgangurinn var ekki að láta umræddum manni líða illa eða hans fjölskyldu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×