Viðskipti innlent

Markaðsfyrirtækin ætla að elta LÍÚ og SF

Haraldur Guðmundsson skrifar
Útgerðarmenn fjölmenntu á 75. og síðasta aðalfund LÍÚ í gær.
Útgerðarmenn fjölmenntu á 75. og síðasta aðalfund LÍÚ í gær. Vísir/Pjetur
 Sölu- og markaðsfyrirtækin Icelandic Group og Iceland Seafood International (ISI) verða meðlimir í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem verða stofnuð í dag. Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Samtök fiskvinnslustöðva (SF) sameinast þá einnig í nýju samtökunum.

„Sameining LÍÚ og SF var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á aðalfundi LÍÚ í dag,“ sagði Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, í samtali við Fréttablaðið í gær.

Stofnfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) verður haldinn í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, mun þá stíga til hliðar en Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða, er eini frambjóðandinn til formanns sameinaðs félags.

„Við erum í dag með aðskilin hagsmunasamtök fyrir fyrirtæki sem hafa þróast heilmikið. Nú er svo komið að stærstur hluti þessara fyrirtækja er að vinna í þessari virðiskeðju allri, alveg frá veiðum til markaðssetningar, og þar á milli eru vinnsla og vöruþróun. Við þurfum því að fara að horfa á sjávárútveginn sem stóra atvinnugrein sem er að skila sem mestum verðmætum með útflutningi á vörum og þjónustu og tækni til útlanda en ekki bara sem einangraða grein sem er í öflun einhvers hráefnis,“ sagði Kolbeinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×