Fótbolti

Mark Arnórs dugði ekki til

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Arnór skoraði gott mark
Arnór skoraði gott mark vísir/getty
Arnór Smárason skoraði fyrir Hammarby þegar liðið tapaði 4-2 fyrir Häcken á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Ögmundur Kristinsson og Birkir Már Sævarsson voru líkt og Arnór í byrjunarliði Hammarby í fyrsta sinn frá því að þeir snéru til baka eftir frægðarför á EM í Frakklandi.

Ögmundur og Birkir léku allan leikinn en Arnór sem jafnaði metin í 1-1 úr vítaspyrnu var tekinn af leikvelli á 73. mínútu leiksins.

Häcken var 2-1 yfir í hálfleik og komst í 3-1 áður en Hammarby minnkaði muninn skömmu fyrir leikslok, aftur úr víti, áður en heimamenn gerðu út um leikinn í uppbótartíma.

Hammarby er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 13 stig, sex stigum frá fallsæti.

Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í vörn Norrköping sem lagði Djurgården 1-0 á útivelli. Með sigrinum náði Norrköping Malmö að stigum í toppsætinu en Malmö á leik til góða.

Björn Daníel Sverrisson lék allan leikinn fyrir Viking sem tapaði mikilvægum stigum á heimavelli í toppbaráttunni í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Viking tapaði 1-0 fyrir Strömsgodset en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í þriðja til fjórða sæti.

Í norsku úrvalsdeild kvenna vann Klepp sem Jón Páll Pálmason þjálfar öruggan 6-1 sigur á Trondheims-Örn.

Klepp var 3-1 yfir í hálfleik en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Klepp er með 18 stig í 8. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×