Lífið

Margt sem tengist læsi ekki beinn lestur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Guðlaug Ásamt barnabarni sínu, Þorgeiri Ás Sigmundssyni.
Guðlaug Ásamt barnabarni sínu, Þorgeiri Ás Sigmundssyni. Vísir/GVA
„Ég hef fundið fyrir áhuga hjá foreldrum sem hafa verið að spyrja mig. Mig langaði að koma á framfæri í bókinni að það er svo margt sem tengist læsi sem er ekki beinn lestur,“ segir Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir.

Hún gaf á dögunum út bókina Er þetta stafurinn minn: Handbók um læsi ungra barna og læsishvetjandi námsspilið Veiðirím.

Bókin er hugsuð fyrir foreldra barna sem eru að byrja að lesa. Guðlaug starfaði við kennslu á leik- og grunnskólastigi í tuttugu ár og er því reynslunni ríkari.

„Þetta er eins og að byggja hús. Ef þú ert að byggja hús þá leggur þú áherslu á góðan grunn og þú ert að leggja þennan grunn frá núll til sex ára, þar til börnin fara út í hinn eiginlega lestur.“

Hún segir umhverfið áhrifaþátt sem ekki megi vanmeta. „Ég hef alltaf sagt að það séu þrír kennarar, foreldrar, kennarinn og umhverfið. Börn sækja mikið af þekkingu í umhverfið ef það er í boði,“ segir hún.

„Bestu meðmæli sem ég hef fengið eftir kennsludag er þegar barn er spurt: Hvað varst þú að gera í skólanum í dag? og það svarar að það hafi verið að leika sér,“ segir Guðlaug glöð í bragði en hún segir lestrarkennslu vera sínar ær og kýr.

Bók Guðlaugar fæst í verslunum Eymundsson og bókin og spilið fást í versluninni Spilavinir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×