Enski boltinn

Margt hefur breyst á ellefu mánuðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Raheem Sterling minnti hressilega á sig í vikunni, en hér fagnar hann marki sínu gegn Arsenal í stórsigrinum í febrúar.
Raheem Sterling minnti hressilega á sig í vikunni, en hér fagnar hann marki sínu gegn Arsenal í stórsigrinum í febrúar. Vísir/Getty
Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni er viðureign Liverpool og Arsenal á Anfield. Fyrir leikinn er Liverpool í ellefta sæti deildarinnar með 21 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti, en Arsenal í sjötta sæti, tveimur stigum frá West Ham sem vermir fjórða sæti deildarinnar með 26 stig.

Arsenal er búið að vinna þrjá af síðustu fjórum leikjum liðsins, þar af 4-1 sigur á Newcastle í síðustu umferð, en Liverpool kemur inn í leikinn eftir bikarsigur á B-deildarliði Bournemouth. Það er aftur á móti án sigurs í síðustu þremur leikjum deildarleikjum og þurfti að sætta sig við 3-0 tap fyrir erkifjendunum í Manchester United í síðustu umferð.

Liverpool-menn vonast til að bikarsigurinn, þar sem Raheem Sterling fór á kostum, kveiki neista í sínum mönnum sem þeir þurfa svo sárlega á að halda. Sterling þarf að halda áfram á sömu braut því Liverpool er ekki sama liðið og þegar það mætti Arsenal á heimavelli síðast fyrir tæpum ellefu mánuðum.

Búið eftir 20 mínútur

Daniel Sturridge skoraði fyrir Liverpool á 20. mínútu gegn Arsenal þegar liðin mættust á Anfield 8. febrúar. Hann var ekki að koma heimamönnum yfir í leiknum heldur að skora fjórða markið. Staðan var 4-0 eftir 20 mínútur og Liverpool-liðið sjaldan eða aldrei litið betur út í sögu úrvalsdeildarinnar.

Með Luis Suárez, Daniel Sturridge og Raheem Sterling í þrusuformi í framlínunni og óþreytta miðjumenn, fulla sjálfstrausts, keyrði Liverpoo-liðið yfir lærisveina Wengers og vann, 5-1.

Tapið var vandræðalegt fyrir Arsenal en ein af gullnu stundunum á ferli Brendans Rodgers hjá Liverpool. Hann setti upp fullkominn leik sem leikmennirnir útfærðu fullkomlega, leikmenn sem voru að spila allt að því fullkomlega. En það var þá.

Ellefu mánuðum síðar er enginn Luis Suárez til staðar, Daniel Sturridge meiddur fram á nýtt ár, Steven Gerrard árinu eldri og heimkoma Rickie Lambert hefur ekki verið táranna sem hann grét við samningsgerðina virði.

Eins og staðan gefur til kynna er Liverpool-liðið ekki líkt því sem spilaði á síðasta tímabili og býst því enginn við sömu yfirburðum. Í raun er Arsenal mun sigurstranglegra. Þótt varnir beggja liða séu ekki upp á marga fiska stendur Arsenal-vörnin sig betur og hefur fengið færri mörk á sig til þessa.

Raheem Sterling er framtíð Liverpool. Hann batt enda á markastífluna gegn Bournemouth í deildabikarnum í vikunni og þarf að vera maðurinn sem keyrir skröltandi Liverpool-vagninn áfram.

Pólverjinn aftur mættur

Það er stutt á milli þess að vera hetja og skúrkur í úrvalsdeildinni. Emilano Martínez var búinn að spila frábærlega fyrir Arsenal og héldu margir að þar færi nýr aðalmarkvörður liðsins. En það þurftu ekki nema þrír boltar að liggja í netinu í 3-2 tapi fyrir Stoke til að fá Wenger til að missa trúna. Wojciech Szczesny var aftur kominn í rammann gegn Newcastle og verður þar áfram.

Aðalmarkvörður Liverpool, Simon Mignolet, verður þó áfram á tréverkinu. Þrátt fyrir að Brad Jones hafi sýnt í síðustu tveimur leikjum af hverju himinn og jörð þurftu nánast að farast áður en Mignolet var settur á bekkinn hefur Rodgers gefið út að Belginn mun sitja á spýtunni um óákveðinn tíma.

Jones veitir óöruggri vörn Liverpool, sem fær á sig 1,38 mörk í leik, ekki mikið traust. Liverpool-vörnin er þó aftur á móti kannski smá blóraböggull fyrir miðjumenn liðsins sem veita varnarlínunni ekki mikla vörn. Liverpool-vörnin er í níunda sæti yfir þau lið með flest skot varin af varnarmönnum, flesta bolta hreinsaða frá marki og hafa komist inn í flesta bolta. Pressan á varnarlínunni er mikil.

Þegar liðið fær á sig tæpt eitt og hálft mark í leik þarf einhver að skora á hinum endanum og það hefur verið vesen. Arsenal gengur mun betur að skora, búið að setja 28 mörk sem er fjórði besti árangurinn í deildinni.

Bæði lið eru brothætt sem þýðir að leikurinn lofar mörkum. Yfirburðirnir ættu þó ekki að vera neinir hjá hvorugu liðinu. Það sem gerðist fyrir ellefu mánuðum gerist ekki aftur. Bæði lið eru á allt öðrum stað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×