Fastir pennar

Margspáð fjölgun

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir er ráðherra ferðamála og hefur verið síðan í júní 2013. Óhætt er að segja að um spennandi málaflokk sé að ræða, æ fleiri ferðamenn sækja Ísland heim og þjóðarbúið fær síauknar tekjur frá þeim gestum. Það er því uppgangur í ferðaþjónustu. Sá uppgangur hefur verið mikill undanfarin ár, en var fyrirsjáanlegur. Árið 2011 fór fjöldi ferðamanna sem komu í gegnum Leifsstöð í fyrsta skipti yfir hálfa milljón, en áætlað er að um 96 prósent allra ferðamanna komi þá leiðina inn í landið. Síðan hefur orðið mikil fjölgun á hverju ári.

Það er því nokkuð sérkennilegt að hlusta á ráðherra málaflokksins tala eins og fjölgunin hafi komið á óvart. Ragnheiður Elín sagði í samtali við fréttastofu RÚV að hún teldi nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu á ferðamannastöðum og að styrkja innviði ferðaþjónustunnar strax. „Við þurfum að bæta úr vegna þess hversu fjölgunin hefur verið hröð á undanförnum árum. Við vorum aðeins tekin í bólinu, það er ekkert nýtt og ekkert sem er að gerast bara í sumar,“ sagði Ragnheiður Elín.

Það er gott að nú eigi að fara að kynna nýja stefnu í málefnum ferðaþjónustunnar, ekki veitir af. Trauðla er til atvinnuvegur hér á landi sem búið hefur við jafn mikinn skort á stefnu og einmitt ferðaþjónustan. En það er þetta með að við höfum verið tekin í bólinu sem er athyglisvert.

Þegar Ragnheiður Elín tók við sem ráðherra málaflokksins var hún fullvel meðvituð um fjölgun ferðamanna. Skyldi engan undra, fyrri ríkisstjórn lagði mikið upp úr því að fjölga ferðamönnum með átakinu Ísland allt árið og hver fræðingurinn á fætur öðrum kepptist við að spá fyrir um hvenær fjöldi ferðamanna færi yfir milljón á ári. Það mun líklega gerast í ár, í fyrra voru gestir í Leifsstöð rúmlega 969 þúsund. Ragnheiður Elín ræddi málefni ferðaþjónustunnar á Alþingi 14. júní 2013, þá rétt nýtekin við sem ráðherra málaflokksins.

„Þar eru ómæld tækifæri með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna,“ sagði ráðherra og fyrr um daginn hafði hún í fyrirspurn um hvalveiðar sagt: „Við höfum horft á mikla fjölgun ferðamanna hingað og mikil tækifæri sem þar eru að skapast.“

Ragnheiður Elín þurfti heldur ekki að sækja vatn yfir lækinn þegar kom að væntingum varðandi fjölgun ferðamanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er kveðið á um að kannaðir verði möguleikar á gjaldtöku til uppbyggingar ferðamannastaða „til að bregðast við auknum fjölda ferðamanna í náttúru Íslands og tryggja sjálfbærni“.

Það hefur með öðrum orðum ekkert komið á óvart þegar kemur að fjölgun ferðamanna. Hún hefur verið fyrirsjáanleg um langa hríð og sjálfur ráðherra málaflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, hefur verið meðvituð um hana síðan hún tók til starfa. Það er meira að segja gert ráð fyrir henni í stjórnarsáttmálanum.

Enginn hefur því verið tekinn í bólinu, nema kannski stjórnvöld. Það hefði átt að vera forgangsverkefni ráðherra ferðamála, bæði þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, að bregðast við þessari miklu fjölgun. Ekki að vera hissa þegar margspáð niðurstaða verður að veruleika.






×