Körfubolti

Margrét látin fara hjá Keflavík | Sigurinn í Grindavík var síðasti leikurinn hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Sturlaugsdóttir.
Margrét Sturlaugsdóttir. Vísir/Stefán
Margréti Sturlaugsdóttur hefur verið sagt upp störfum hjá kvennaliði Keflavíkur í Domino's deildinni í körfubolta en hún staðfesti þetta við Víkurfréttir í kvöld.

Margrét sagði í samtali við Víkurfréttir að hún hefði viljað vera áfram með liðið en því miður hafði það ekki gengið.

Falur Harðarson, eiginmaður Margrétar, er formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, og samkvæmt heimildum Vísis þá er hann einnig hættur sem formaður.

Keflavíkurkonur unnu glæsilegan endurkomusigur á Grindavík á þriðjudaginn í síðasta leik liðsins undir stjórn Margrétar en Keflavíkurliðið hefur verið á uppleið undir hennar stjórn.

Margrét skilur við Keflavíkurliðið í 3. sæti Domino´s deildarinnar með sex sigra og sex töp. Sigurinn í Grindavík var fyrsti útisigur tímabilsins en Keflavíkurkonur hafa aftur á móti unnið 5 af 6 heimaleikjum sínum í vetur.

Í byrjun tímabilsins yfirgaf landsliðskonan Bryndís Guðmundsdóttir Keflavíkurliðið eftir deilur við Margréti og Bryndís spilar nú með Snæfelli.  Margrét hætti í framhaldinu sem aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.

Keflavík mætir Skallagrími í átta liða úrslitum bikarsins á morgun. Marín Rós Karlsdóttir mun stýra liðinu þar til nýr þjálfari hefur verið ráðinn, en í bikarleiknum á morgun gegn Skallagrím mun Sigurður Ingimundarson vera henni til aðstoðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×