Íslenski boltinn

Margrét Lára og nýja Valsliðið í beinni á Stöð 2 Sport 2 í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar með Val fyrir átta árum.
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar með Val fyrir átta árum. Vísir/Stefán
Önnur umferð Pepsi-deildar kvenna fer fram í dag en þá fara fram allir fimm leikirnir í umferðinni. Eins og alltaf í sumar verður einn leikjanna í beinni á sportstöðvum 365.

Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í Val spila í kvöld sinn fyrsta heimaleik í Pepsi-deild kvenna í sumar þegar liðið fær KR í heimsókn. Þetta verður fyrsti deildarleikur Margrétar Láru á Hlíðarenda í átta ár.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Margrét Lára skoraði í fyrsta leik Vals á Íslandsmótinu en þá gerði liðið 2-2 jafntefli á móti Fylki í Árbæ. Þetta var ellefti leikurinn í röð sem hún skorar í úrvalsdeild kvenna því Margrét Lára skoraði í tíu síðustu leikjum sínum þegar hún lék síðast í deildinni sumarið 2008.

Margrét Lára er bara ein af mörgum nýjum leikmönnum í liði Vals en í byrjunarliðinu á móti Fylki í fyrstu umferðinni voru fimm leikmenn sem voru ekki með Val í fyrra.

Þetta voru auk Margrétar Láru þær Sandra Sigurðardóttir, Dóra María Lárusdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir. Í viðbót hefur liðið fengið til sín öfluga leikmenn eins og þær Pálu Marie Einarsdóttur, Thelmu Björk Einarsdóttur og Örnu Sif Ásgrímsdóttur en sú síðastnefnda verður líklega ekkert með í sumar vegna meiðsla.

Önnur umferðin verður síðan gerð upp í Pepsi mörkum kvenna annað kvöld en þar mun Helena Ólafsdóttir fá til sín góða gesti til að ræða það sem gerist í leikjunum fimm sem fara fram í kvöld.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×