Innlent

Margir verða fyrir ofbeldi á internetinu

Sveinn Arnarsson skrifar
Gera má ráð fyrir að um eitt hundrað þúsund manns brjóti af sér reglulega á netinu.
Gera má ráð fyrir að um eitt hundrað þúsund manns brjóti af sér reglulega á netinu.
Alls þrettán prósent Íslendinga á aldrinum 18-76 ára segjast hafa orðið fyrir netbroti á síðustu þremur árum. Algengast er að hafa orðið fyrir meiðyrðum eða rógburði, eða 33 prósent allra þeirra sem urðu fyrir netbroti.

Að sama skapi hafði fjórðungur svarenda heimsótt klámsíður á sama tímabili. Einnig sögðust þrettán prósent svarenda hafa orðið þolendur afbrots á netinu á síðustu þremur árum. Þá var algengt að nefna fjársvik og kreditkortasvindl.

Rannsóknin var gerð af Helga Gunnlaugssyni, prófessors í félagsfræði við HÍ, og Jónasi Orra Jónassyni, félagsfræðingi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við Félagsvísindastofnun HÍ. Það sem einnig kemur fram er að eftir því sem einstaklingur notar netið meira, því líklegra er að hann verði fyrir einhvers konar netbroti..

Helgi Gunnlaugsson prófessor félagsfræði afbrotafræði
„Áhugavert er að skoða þolendur netbrota. Netbrot eru býsna algeng og bara það að brotin séu nefnd, eins og að rógi og meiðyrðum sé dreift um þá á netinu, sýnir að mönnum er ekki sama,“ segir Helgi. „Svo ekki sé minnst á fjársvik, hótanir um ofbeldi eða kynferðislega áreitni sem sannarlega hefur áhrif á þolendur.“

Mikið hefur verið rætt um hugmyndir innanríkisráðherra um nýja netbrotadeild lögreglunnar. Ljóst er að afbrot á netinu miðað við núverandi lagaramma eru gríðarlega útbreidd meðal ungs fólks og því líklegt að deild innan lögreglunnar sem ætti að rannsaka niðurhal myndi fyrst og fremst beinast að ungu fólki.

„Niðurstöðurnar um ólöglegt niðurhal eru sláandi og sýna svart á hvítu að lífsstíll og hugsunarháttur unga fólksins er töluvert frábrugðinn hinna eldri og kominn langt út fyrir það sem hefðbundin löggjöf heimilar og gerir ráð fyrir,“ segir Helgi. „Unga kynslóðin hefur vaxið fram úr lagarammanum og áleitin spurning hvernig bregðast eigi við. Á að berja ungdóminn inn í hefðbundinn lagaramma eða verður að breyta löggjöfinni á einhvern hátt til að mæta þessum nýja tæknilega veruleika?“ bætir Helgi við




Fleiri fréttir

Sjá meira


×