Erlent

Margir látnir í lestaslysi á Ítalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin var tekin af slökkviliðsmönnum úr þyrlu.
Myndin var tekin af slökkviliðsmönnum úr þyrlu. Vísir/EPA
Uppfært 13:05

Minnst tuttugu eru látnir og tugir eru sagðir slasaðir eftir að tvær farþegalestir skullu saman í suðurhluta Ítalíu í morgun. Björgunaraðilar vinna nú að því að ná fólki úr braki lestanna. Yfirmaður lögreglunnar á svæðinu sagði héraðsmiðli að hann teldi fjölda fólks hafa látið lífið.

Á myndum frá vettvangi má sjá að lestirnar eru verulega skemmdar. Þær voru á sömu teinum á leið í sitthvora áttina þegar þær skullu saman. Fjórir vagnar voru í báðum lestunum, en slysið varð skammt suðvestur af bænum Andria, eða mitt á milli Andria og Corato.

Lestirnar eru sagðar hafa verið á miklum hraða þegar slysið varð. Bæjarstjóri Corato, segir að aðkoman að slysinu hafi verið eins og um flugslys hefði verið að ræða.

Samkvæmt frétt BBC ferðast þúsundur um lestarteinana á hverjum degi og er unnið að því að gera þá tvöfalda. Um 200 lestir fara þar um daglega.

Óttast er að tala látinna muni hækka.

Þegar er búið að bjarga ungu barni úr lestinni og var það flutt á sjúkrahús.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur heitið því að yfirvöld munu komast að því hvað fór úrskeiðis. Hann hefur vottað aðstandendum hinna látnu samúð sína.

Saksóknari segir of snemmt að segja til um orsök slyssins, en hann telur líklegt að um mannleg mistök sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×