Enski boltinn

Margir héldu að Gomis væri látinn

Óhugnalegt atvik átti sér stað í leik Tottenham og Swansea í gær.

Þá leið yfir framherja Swansea, Bafetimbi Gomis, og urðu bæði leikmenn og áhorfendur skelkaðir. Skal engan undra þar sem knattspyrnumenn hafa átt það til að deyja á vellinum síðustu ár. Atvikið átti sér stað á 6. mínútu er Spurs var nýbúið að skora í leiknum.

Leikmenn hópuðust saman og margir tóku fyrir höfuð sér enda hræddir um það versta. Sem betur fer var í lagi með framherjann.

Gomis aftur á móti hefur lent í þessu áður en árið 2009 leið þrisvar sinnum yfir hann.

„Ég hef verið undir miklu álagi þar sem faðir minn er mjög veikur og ég hef þurft að ferðast ítrekað til Frakklands og aftur til baka upp á síðkastið," sagði Gomis en staðfest var eftir leik að það væri í lagi með hann.

„Ég vil að fólk viti að það er í lagi með mig. Ég veit að það lítur mjög illa út þegar líður svona yfir mig en mér líður vel núna."

Hann fór í miklar rannsóknir árið 2009 er ítrekað leið yfir hann. Læknar fundu ekki út að hann væri í einhverri hættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×