Lífið

Margir aðdáendur upplifa depurð eftir Eurovision

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Hildur segir depurðina vera ansi algenga eftir keppni.
Hildur segir depurðina vera ansi algenga eftir keppni. Vísir/Stefán
„Þetta er vandamál sem hefur oft komið upp í Eurovision-samfélaginu,“ segir Hildur Tryggvadóttir Flóvenz Eurovision-aðdáandi um eftir-Eurovision-depurð, eða PED – Post Eurovision Depression.

„Þetta er nú ekkert alvarlegt þunglyndi,“ segir hún hlæjandi og bætir við: „Þú ert búinn að vera á kafi í þessu frá því í janúar, allar undankeppnirnar og það. Svo kemur að keppninni sjálfri og maður er í einhverri Euro-bólu. Svo kemur skellurinn þegar þessu lýkur svona snögglega.“

Hildur segir misjafnt hvernig hver og einn taki þessu. „Sumir fá bara ógeð og fara að sinna öðru. Aðrir sökkva sér í gamlar keppnir og svo eru einhverjir sem fá einn keppanda á heilann og hlusta bara á hann. En svo rjátlast þetta af manni.“

Hún segir að þeir sem fari á keppnina lendi verr í þessu. „Það gerir PED-ið enn verra, en þá er bara um að gera að ræða við aðra sem eru að ganga í gegnum það sama.“ Hún segir það hjálpa mikið til að byrja strax að huga að næstu keppni.

„Það er bókað að þetta verður fullkomið, Svíarnir kunna þetta. Svo er undankeppnin í Sviss oftast í september þannig að þetta fer að byrja aftur,“ segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×