Fótbolti

Margir að reyna að hjálpa Kristjáni Gauta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Gauti Emilsson í leik með FH í sumar.
Kristján Gauti Emilsson í leik með FH í sumar. Vísir/Valli
Kristján Gauti Emilsson fór frá FH um mitt sumar og til hollenska liðsins NEC Nijmegen sem keypti hann af Hafnarfjarðarliðinu. Kristján Gauti hefur hinsvegar misst af mörgum leikjum á tímabilinu vegna meiðsla.

Kristján Gauti hefur skorað eitt mark í sex leikjum með NEC Nijmegen í hollensku b-deildinni í fótbolta en hann hefur ekkert getað spilað með liðinu í undanförnum fimm leikjum.

„Það eru margir að vinna með meiðslin hjá Kristjáni og ekki bara fólk hjá NEC. Við ætlum að leita til bestu sérfræðinganna í landinu til að fá einhver svör," sagði Ruud Brood, þjálfari NEC Nijmegen, í viðtali á heimasíðu félagsins.

Kristján Gauti er meðal annars á leiðinni til læknisins Heijboer van het Erasmus í Rotterdam sem þykir einn sá hæfasti á þessu sviði.

„Kristján veit nákvæmlega hvar verkurinn er en það sést ekkert á myndunum. Þess vegna er mjög erfitt að hefja meðferð og endurhæfingu. Vonandi finnst lausn sem fyrst því þetta er mjög pirrandi fyrir bæði strákinn og félagið," sagði Ruud Brood.

Kristján Gauti skoraði 5 mörk í 9 leikjum með FH í Pepsi-deildinni í sumar en hann fór frá félaginu í byrjun ágústmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×