Skoðun

Margar hliðar á nýju námsmati í grunnskólum

Bryndís Jónsdóttir og skrifa
Í vor verða nemendur í 10. bekk í fyrsta skipti útskrifaðir með lokaeinkunn í bókstöfum eins og stefnt hefur verið að frá því að ný Aðalnámskrá grunnskóla leit dagsins ljós árið 2011. Mjög mismunandi er hvers vel skólar eru á veg komnir við undirbúa breytt vinnubrögð við námsmat til að mæta kröfum  námskrárinnar og einnig mismunandi hvort og hversu vel þær áætlanir hafa verið kynntar nemendum og foreldrum.  Flestir sem hafa tjáð sig opinberlega eru sammála um að mat á hæfni fremur en próf í þekkingaratriðum sé framfaraskref.

Fyrir hverja er námsmatið?

En hvað felur þetta nýja námsmat í sér? Hvað á að meta og hvernig? Hver er ávinningurinn fyrir nemendur? Hvað þýðir þetta fyrir nemendur sem sækja um framhaldsskóla í vor?  Er námsmatið til bóta fyrir grunnskólana, nemendur sjálfa eða framhaldsskólana og hverjum á það að þjóna?  

Skólastjórnendur og kennarar kalla eftir skýrari leiðbeiningum, nemendur hafa áhyggjur af því að ekki verði samræmi milli skóla  og vilja vita hvernig einkunnagjöf í bókstöfum rímar við þá kvarða sem þeir þekkja fyrir, ýmsar spurningar brenna á foreldrum og einhverjir framhaldsskólar íhuga að taka upp inntökupróf.  

Á sama tíma og talað er um að auka vægi list- og verkgreina á nú að gefa eina sameiginlega einkunn fyrir verkgreinar og aðra fyrir listgreinar við útskrift úr grunnskóla. Þetta gæti þýtt að nemandi sem er stendur sig frábærlega í tónmennt en afleitlega í myndmennt fengi miðlungseinkunn í listgreinum.  Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir nemendur sem eiga styrkleika sína í stökum list- og/eða verkgreinum fremur en bóklegum greinum? Stendur einnig til að gefa eina einkunn fyrir erlend tungumál sem eru sett fram með sameiginleg hæfniviðmið og matsmiðvið í námsskránni?

Sumir spyrja sig hvort minni teygni einkunnaskalans sem leiðir til þess að stærri hópar en áður fá sömu einkunn verði til þess að nemendur hafi ekki jafn mikla hvatningu til að leggja sig fram.  Aðrir velta fyrir sér hvort einkunnin D sé fall og hvað það þýði fyrir nemandann varðandi áframhaldandi nám að fá stjörnumerktan bókstaf, eins og heimilt er að gefa, séu nemendur með einstaklingsnámskrá.  Það er ljóst að mörgum spurningum er ósvarað og sitt sýnist hverjum.

Ertu klár?  

SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, bjóða til umræðu- og fræðslufundar um námsmatið í Þróttaraheimilinu fimmtudaginn 12. nóvember kl. 19.30-22.00. Sviðsstjóri matssviðs Menntamálastofnunar, skólastjórnendur í Réttarholtsskóla og nemendur úr Ingunnarskóla munu flytja erindi og síðan verða pallborðsumræður þar sem við bætast fulltrúar kennara, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og skólameistara í framhaldsskólum.  Við hvetjum foreldra og nemendur í elstu bekkjum grunnskólans til að koma og vera virk í umræðum um þetta mikilvæga hagsmunamál nemenda. Fundastjóri er Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands og eru allir áhugasamir boðnir velkomnir.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×