Viðskipti innlent

Margar fyrirspurnir um hvalabjórinn frá útlöndum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ekki er hægt að selja Hval II hér heima nema í takmarkaðan tíma.
Ekki er hægt að selja Hval II hér heima nema í takmarkaðan tíma. aðsend mynd
Eigandi Brugghúss Steðja íhugar að halda framleiðslu á Hval II áfram. Bjórinn er meðal annars framleiddur úr hvalaeistum.

Eftir að Fréttablaðið greindi frá bjórnum í byrjun janúar birtu nokkrir af stærstu fréttamiðlum heims fréttir af honum. „Við höfum fengið gríðarlega mikla athygli um allan heim og miklar pantanir að utan. Og hefðum getað selt beint út það sem við vorum með í framleiðslu ef við hefðum viljað sinna því,“ segir Dagbjartur Arilíusson, eigandi Steðja.

Vínbúðirnar, sem hafa einkaleyfi á smásölu áfengra drykkja á Íslandi, selja þorrabjór einungis á tímabilinu 23. janúar til 21. febrúar. Framleiðsla Steðja á Hval II var einungis hugsuð til þess að svara eftirspurn á því tímabili.

„En engu að síður er unnið úr þessum fyrirspurnum sem koma að utan,“ segir Dagbjartur. Það yrði þá aukið við framleiðsluna á þessum tiltekna bjór og selt út. „Það er það sem við erum að íhuga núna, hvað við gerum. Ef við fáum einhvern almennilegan markað úti þá höldum við áfram,“ segir hann.

Dagbjartur segir þó að það sé takmarkað hvað sé hægt að flytja mikið út vegna hindrana sem hafi verið settar á viðskipti með hvalaafurðir. Til dæmis í Evrópusambandinu.

„Þar voru fjórir heildsalar, hver í sínu landinu, sem vildu flytja þetta inn,“ segir Dagbjartur. Innflytjendur á Írlandi séu búnir að fá neitun frá yfirvöldum þar í landi og hann býst við að eins fari fyrir hinum þremur.

En Dagbjartur segir að það hafi ekki allir tekið bjórnum vel. „Það hafa komið mótbárur en mjög léttvægar,“ segir hann. Ein erlend mótmælasíða hafi verið sett upp og þar hafi nokkrir skrifað undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×