Fótbolti

Maradona ætlar að berjast gegn glæpamönnum innan FIFA

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Diego Armando Mar
Diego Armando Mar
Argentínska goðsögnin Diego Armando Maradona segist ætla að berjast gegn þeim einstaklingum sem hafa eyðilagt ímynd Alþjóðaknattspyrnusambandsins og litað samtökin sem einhver glæpasamtök.

Fyrr í sumar voru sjö háttsettir starfsmenn sambandsins handteknir fyrir mútuþægni og hlutdeild að spillingu innan sambandsins sem leiddi til þess að forseti sambandsins, Sepp Blatter, sagði af sér stuttu eftir að hafa verið endurkjörinn í fimmta sinn. Maradona var ánægður að sjá Blatter fara en hann segir að það þurfi að berjast gegn mafíunni innan sambandsins.

„Ég þarf að halda áfram að berjast gegn spillingunni sem á sér stað inn í sambandinu, ég þarf að berjast gegn þeim sem hafa stolið úr sjóðum sambandsins. Ég er ánægður að sjá aðgerðir amerísku alríkislögreglunnar, þeir taka á þessu af hörku,“ sagði Maradona sem sagðist ekki ætla að bjóða sig fram sem forseti sambandsins en var vongóður um að fá starf hjá sambandinu einn daginn.

„Markmið mitt er að verða hluti af sambandinu,“ sagði Maradona í samtali við argentínska sjónvarpsstöð en Maradona var á sínum tíma einn besti knattspyrnumaður heimsins sem rataði oft í fjölmiðla yfir vafasaman lífsstíl sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×