Viðskipti innlent

Már leggur línurnar fyrir kjaraviðræður

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir ekki raunhæft að laun hækki um meira en 3,5 prósent á ársgrundvelli í komandi kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins. Seðlabankinn mun ella beita stýrivöxtum til að draga úr áhrifum launahækkana á verðbólgu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum en vaxtaákvörðun var kynnt í dag. Verðbólga, sem mælist nú 1,8%, hefur verið undir markmiði í átta mánuði samfleytt og horfur eru á minni verðbólgu næstu mánuði en spáð var í ágúst.

Í yfirlýsingu nefndarinnar er hins vegar lýst áhyggjum ef spennu á vinnumarkaði og gefið í skyn að Seðlabankinn þurfi að hækka stýrivextina næst, meðal annars af þeim sökum. 



„Kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu eftir sem áður leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir Seðlabankans þyrftu að hækka,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Mjög stíf krafa er hjá aðildarfélögum ASÍ að laun hækki í komandi kjaraviðræðum. Þá á eftir að leysa kjaradeilur ríkisstarfsmanna eins og lækna og unglæknar fara fram á mjög myndarlega hækkun launa.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir ekki æskilegt að laun hækki meira en 3,5 prósent á ársgrundvelli ef markmið um verðbólgu á að nást.

„Það er alveg ljóst að ef að við ætlum að halda þessu verðbólgumarkmiði þá er ekki hægt að búast við því yfir lengri tíma að laun hér á landi á hverju ári hækki meira en þrjú og hálft prósent að meðaltali. Í góðum árum fjögur, og þetta er miklu meira en í löndunum í kringum okkur,“ segir Már. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×