Sport

Manziel „lamdi kærustuna ítrekað“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johnny Manziel hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Cleveland Browns.
Johnny Manziel hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Cleveland Browns. Vísir/Getty
Johnny Manziel, leikstjórnandi hjá Cleveland Browns í NFL-deildinni, mun samkvæmt framburði kærustu hans hafa lagt hendur á hana eftir rifrildi á hóteli í Dallas á dögunum.

Þetta kom fram í lögregluskýrslu sem var birt í gær en þrátt fyrir það hefur kæra ekki enn verið lögð fram í málinu.

Coleen Crowley, kærasta Manziel, segir samkvæmt skýrslunni að Manziel hefði sýnt henni ofbeldisfulla hegðun líkt og að hann væri á eiturlyfjum. Hún mun þó hafa sagt henni að hann hefði ekki verið undir áhrifum vímuefna.

Hún sagði í framburði sínum að Manziel hafi veitt henni nokkur högg en var að öðru leyti nokkuð óljós í lýsingu sinni á atburðum. Hún mun hafa sýnt minni samstarfsvilja eftir því sem að leið á viðtal lögreglunnar við hana.

Sjá einnig: Næturlífið kostaði Manziel starfið

Málið er enn í rannsókn en atvikið mun hafa átt sér stað í síðustu viku. Það virðist hafa verið síðasta hálmstráið hjá forráðamönnum Browns en fullyrt er að liðið muni nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans um leið og það verður heimilt, þann 9. mars.

Þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem Manziel kemst í fréttirnar fyrir hegðun sína utan vallar. Í haust sagði Crowley að Manziel hafi lagt hendur á sig í miðri bílferð en hún neitaði að leggja fram kæru og var ekkert frekar gert í málinu.

Sjá einnig: Djammaði í Vegas með hárkollu og skegg

Þá hefur Manziel áður verið refsað af liði sínu fyrir að sækja næturlífið óhóflega mikið en hann fór í þriggja mánaða áfengismeðferð á síðasta ári til að reyna að endurvinna sér traust forráðamanna liðsins, sem er nú algjörlega á þrotum.

NFL

Tengdar fréttir

Rauði riffillinn skaut niður Cleveland

Lið Cincinnati Bengals heldur áfram að endurskrifa sögu félagsins en í nótt vann liðið sinn áttunda leik í röð. Liðið hefur aldrei náð að vinna fyrstu átta leiki sína á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×