Erlent

Mannskæður eldsvoði í Pakistan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bíllinn er illa brunninn og mikið skemmdur.
Bíllinn er illa brunninn og mikið skemmdur. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti 140 fórust þegar kviknaði í olíuflutningabíl í pakistönsku borginni Ahmedpur í gær.

Yfirvöld á svæðinu greina frá því að bíllinn hafi farið á hliðina þegar eitt dekkja bílsins sprakk í beygju. Þá hafi borgarbúar mætt á svæðið til að safna saman olíu sem lak úr bílnum.

BBC greinir frá því að líklega hafi kviknað í olíunni út frá sígarettu. „Nokkuð smávægilegt atvik varð þannig að gríðarlegum harmleik,“ sagði slysavarnamaðurinn Jam Sajjad við BBC.

Voru herþyrlur sendar á vettvang til að ferja særða og látna á spítala. Búist er við því að tala látinna muni hækka enn frekar.

Þá greina þarlendir miðlar frá því að fórnarlömb slyssins hafi mörg hver brennst svo illa að ómögulegt sé að bera kennsl á þau nema með DNA-prófum.

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, stytti ferð sína til Lundúna vegna atviksins og hélt heim á leið í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×