Erlent

Mannskaði er hjúkrunarheimili brann til grunna í Kína

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Heimilið brann til kaldra kola.
Heimilið brann til kaldra kola. vísir/afp
38 manns létu lífið í eldsvoða í Henan héraði í Kína í gærkvöldi. Sex aðrir til viðbótar eru slasaðir. Bruninn átti sér stað á hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara. Ástand tveggja hinna særðu er sagt alvarlegt. Þetta kemur fram á vef BBC.

Xi Jinping, forseti Kína, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að yfirvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma aðstandendum íbúanna til aðstoðar og að hinir særðu fái bestu mögulegu læknisaðstoð.

Hjúkrunarheimilið var staðsett í borginni Pingdingshan í Henan héraði. Einn eftirlifenda, hinn 82 ára Zhao Yulan, segir að aðeins tveir af ellefu herbergisfélögum hans hafi komist lífs af. 51 íbúi var á heimilinu.

Björgunarmenn hafa leitað í rústunum í veikri von um að fleiri kunni að finnast á lífi. Upptök eldsins eru ekki ljós. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×