Erlent

Mannfall meðal Rússa meira en þeir vilja gefa upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskir hermenn að störfum í Aleppo.
Rússneskir hermenn að störfum í Aleppo. Vísir/AFP
Mannfall meðal hersveita Rússlands í Sýrlandi er rúmlega þrisvar sinnum hærra en þeir hafa gefið upp. Átján Rússar hafa fallið í átökum þar frá 29. janúar. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir fimm menn hafa fallið á þeim tíma.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar rannsakenda sem kallast Conflict Intelligence Team. Reuters fréttaveitan hefur staðfest niðurstöður þeirra.

Flestir mennirnir voru ekki hermenn heldur störfuðu þeir sem verktakar undir rússneskum herforingjum. Samkvæmt Reuters hafa yfirvöld í Rússlandi ekki staðfest að verktakar séu að störfum í Sýrlandi.

Einn þeirra sagði fjölskyldumeðlimum sínum að fjöldi slíkra verktaka í Sýrlandi hefði komið honum á óvart.

Yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið við Reuters.

Samkvæmt rannsókninni og Reuters er um að ræða fimm hermenn, en fall þeirra hefur verið tilkynnt af yfirvöldum Rússlands. Tveir hermenn eru sagðir hafa fallið til viðbótar auk ellefu verktaka. Minnst tíu þeirra létust í bardögum nærri Palmyra.

Samkvæmt Reuters benda fregnir til þess að fleiri en átján Rússar hafi fallið í Sýrlandi frá lokum janúar. Það hafi hins vegar ekki verið staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×