Innlent

Mannanafnanefnd valdalaus en gæti hist, bloggað og jafnvel kommentað

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Gnarr heitir nú Jón Gnarr.
Jón Gnarr heitir nú Jón Gnarr. Vísir/Stefán
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, segir íslensku mannanafnalögin veraólög sem standi í vegi fyrir þeirri skapandi hugsun sem er meginstoð íslenskrar tungu og menningar. „Þau hamla þroska.“

Þetta kemur fram í nýjasta pistli Jóns sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir hann frá því að hann hafi loks fengið samþykkta nafnabreytingu fyrir bandarískum dómstólum. Jón hefur deilt við íslensk yfirvöld um margra ára bil og ekki fengið nafnabreytingu samþykkta.

„Mér var ekki gefið nafn heldur vann ég fyrir því. Nafn er persónulegt og getur haft tilfinningalega merkingu fyrir manni sem enginn annar skilur. Og það er allt í lagi. Það kemur það engum við hvað maður heitir eða vill heita því að réttur hvers og eins til að bera ákveðið nafn er mikilvægari heldur en hagsmunir samfélagsins af því að hafna því. Það er kjarni málsins. Og ríkið getur ekki í krafti neins nema valdníðslu þröngvað sumum til að vera einhverjir kyndilberar íslenskrar tungu og menningar á meðan það undanskilur aðra,“ segir í pistlinum.

Jón segir að ef það væri raunverulegt markmið þessa fólks þá væri það ekki að banna nöfn eins og Fenris, Gandálfur og Gnarr á meðan fjöldi Íslendinga heitir alls konar taílenskum, enskum og pólskum nöfnum. „„Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða,“ mælti Njáll. Mannanafnalögin eru ólög sem standa í vegi fyrir þeirri skapandi hugsun sem er meginstoð íslenskrar tungu og menningar. Þau hamla þroska. Endurskoðum því lögin og leggjum niður Mannanafnanefnd. Nefndin getur áfram hist og haldið fundi, það eina sem breytist er að hún fær ekkert borgað og hefur ekkert vald. Hún getur samt bloggað um skoðanir sínar eins og allir aðrir íslenskir kverúlantar og þeir geta lesið það sem vilja og jafnvel kommentað,“ segir Jón.

Hér má lesa pistil Jón í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×