Erlent

Mannætukrókódílar finnast í Florida

Bjarki Ármannsson skrifar
Þeir eru óárennilegir, Nílarkrókódílarnir.
Þeir eru óárennilegir, Nílarkrókódílarnir. Vísir/Getty
Þrír Nílarkrókódílar hafa fundist í fenjum Florida-ríkis í Bandaríkjunum og mögulegt er að fleiri lifi þar villtir. Skepnurnar eru mjög hættuleg rándýr og gætu valdið miklum skaða á lífríkinu að mati sérfræðinga.

Breska ríkisútvarpið greinir frá. Skepnurnar fundust árin 2009, 2011 og 2014 en DNA-próf staðfesti nýverið að um Nílarkrókódíla sé að ræða.

Ólíkt flatmunnum (e. alligator), breiðtrýningunum sem finnast villtir í þessum hluta Bandaríkjanna, sækja Nílarkrókódílar sérstaklega í stór spendýr og þeir slá ekki hendinni á móti mannakjöti. Flatmunnar hafa samkvæmt Wikipedia banað þremur Bandaríkjamönnum frá árinu 2010 en Nílarkrókódílar bana allt að tvöhundruð manns á ári á heimaslóðum sínum í Afríku.

Þá geta þeir orðið töluvert stærri en frændur sínir í Bandaríkjunum, eða um sex metrar að lengd.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er ekki vitað hvernig Nílarkrókódílarnir þrír komust til Bandaríkjanna. Útilokað er að þeir hafi synt yfir Atlantshafið en sérfræðingar við Háskólann í Florida segja mögulegt að þeim hafi verið smyglað til landsins af söfnurum sem svo hafi annað hvort sleppt þeim viljandi eða ekki fylgst nógu vel með þeim.

Burtséð frá hættunni sem Nílarkrókódílar geta valdið mannfólki, hafa lífríkissérfræðingar áhyggjur af því að þessi öflugu rándýr nái að fjölga sér og valda verulegum skaða á lífríki fenjanna, hvar fæðukeðjan gerir ekki ráð fyrir Nílarkrókódílum.

Mýmörg dæmi eru um að aðskotadýr sem menn hafa flutt milli ólíkra svæða hafi fjölgað sér grimmt, lagt undir sig stór svæði og jafnvel stefnt öðrum dýrategundum í hættu. Florida-búar þekkja þetta best af dæmi búrmönsku pýþon-slangnanna sem bárust óvænt til fenjanna á níunda áratugnum, hámuðu í sig skepnurnar sem á vegi þeirra urðu og telja nú um þrjátíu þúsund stykki á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×