Erlent

Mannætuhlébarði hrellir ölvaða þorpsbúa í Himalajafjöllunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Óvíst er um hvort um karl- eða kvenkynsdýr er að ræða..
Óvíst er um hvort um karl- eða kvenkynsdýr er að ræða.. Vísir/AFP
Mannætuhlébarði hefur hrellt þorpsbúa í Himalaja-fjöllunum undanfarið og virðist ráðast sérstaklega gegn fótgangandi vegfarendum undir áhrifum áfengis. Sami hlébarðinn er talinn hafa banað tólf manns frá því í janúar 2012, þar af tveimur það sem af er ári.

Madan Peneru, íbúi í þorpinu Kótalí, segir í samtali við The Telegraph að þorpsbúar óttist að fara út eftir að rökkva tekur vegna hættu á að rekast á hlébarðann.

„Fólk gengur um með prik á sér og er alltaf á tánum,“ segir Paneru. „Margir þorpsbúar telja að drukkið fólk sé auðveld bráð.“

Belinda Wright, formaður náttúrulífsverndarsamtaka Indlands, segist ekki telja að hlébarðar ráðist sérstaklega gegn ölvuðu fólki.

„Þegar fólk er drukkið og fótgangandi á leið heim er það auðveld bráð,“ segir Wright. „Ég er viss um að maður bragðast ekkert betur við það að hafa smakkað vín.“

Hlébarðar og skyld kattardýr byrja oft að neyta mannakjöts þegar þau eldast eða slasast og eiga erfitt með að ná villibráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×