Íslenski boltinn

Máni lætur Valskonur heyra það: Eru nógu sterkir og stórir karakterar í þessu liði?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valskonur fengu heldur betur skell gegn Þór/KA, 4-0, í 15. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta. Valskonur virtust ekki vera komnir niður úr skýjunum eftir frábæran sigur á Stjörnunni í næstsíðustu umferð og stimpluðu sig endanlega úr titilbaráttunni.

Máni Pétursson, sérfræðingur Pepsi-marka kvenna, tekur Valsliðið í gegn í þætti kvöldsin sem verður sýndur klukkan 20.20 á Stöð 2 Sport HD.

„Það vantaði Pálu [Pálu Marie Einarsdóttir] sem er mikill karakter. Hún er föst fyrir og virkað pirruð inn á vellinum en þetta er baráttujaxl sem er alin upp í Hafnarfirðinum. Það er engin spurning um það,“ segir Máni.

„Hún byrjar ekki fyrstu leiki Vals þar sem Valur gerir jafntefli við lið sem það á að rúlla upp á venjulegum degi. Síðan kemur þessi tapleikur en ég held að Pála hafi spilað einn af tapleikjum Vals.“

Valsliðið er frábærlega mannað og safnaði til sín landsliðskonum núverandi og fyrrverandi fyrir leiktíðina. Liðið er í þriðja sæti, sjö stigum frá toppnum þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Förum yfir þetta Valslið. Þarna er hver landsliðsmaðurinn á fætur öðrum, þvílíkar kanónur sem hafa unnið fullt af Íslandsmeistaratitlum. Nú velti ég fyrir mér: Eru nógu sterkir og stórir karakterar í þessu liði?“ spyr Máni.

„Við sjáum liðið brotna algjörlega saman á Akureyri þegar Sandra fær á sig klaufamark eins og hún gerði í Garðabænum. Þegar þetta gerist er eins og allt molni undan liðinu,“ segir Máni Pétursson.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan en öll umræðan verður í þættinum sem er á dagskrá klukkan 20.20 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×