Íslenski boltinn

Máni: Spenntur að sjá hvernig FH bregst við því að lenda undir | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nýliðar FH hafa komið liða mest á óvart það sem af er tímabili í Pepsi-deild kvenna.

FH-ingar eru í 2. sæti deildarinnar með sjö stig, líkt og topplið Stjörnunnar sem er með betri markatölu.

Fimleikafélagið er búið að vinna útisigra á ÍA og KR og gerði markalaust jafntefli við Íslandsmeistara Breiðabliks í Kaplakrika. Og það sem meira er, þá er liðið ekki enn búið að fá á sig mark í sumar.

Sjá einnig: Sjáðu öll mörkin úr 3. umferð Pepsi-deildar kvenna

FH var til umræðu í Pepsi-mörkum kvenna í gærkvöldi.

„FH-liðið verst gríðarlega vel og þær vinna svo vel fyrir hvora aðra,“ sagði Þorkell Máni Pétursson. Hann benti þó á að mörkin tvö sem FH hefur skorað í sumar hafi verið afar ódýr og komið eftir mistök mótherjans.

Máni segir áhugavert að sjá hvernig FH-ingar bregðast við þegar andstæðingnum tekst loks að koma boltanum framhjá Jeannette J. Williams í marki Hafnfirðinga.

„Maður bíður spenntur eftir að sjá hvað gerist ef FH fær á sig mark og þarf að fara að sækja sigur og fara fram á völlinn,“ sagði Máni.

Sjá einnig: Fjórtán ára tryggði FH sigur á ÍA | Sjáðu markið

Stelpur fæddar 2000 og 2001 hafa skorað mörkin tvö sem FH hefur gert í sumar. Helena Ólafsdóttir, stjórnandi Pepsi-markanna, vill sjá meira frá framherjanum Aldísi Köru Lúðvíksdóttur sem varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í fyrra.

„Svo er einn leikmaður sem maður vill sjá fara í gang. Það er Aldís Kara. Hún getur alveg skorað upp á sitt einsdæmi,“ sagði Helena um Aldísi sem hefur skorað 70 mörk í 107 leikjum í deild og bikar hér á landi.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×