Enski boltinn

Manchester United lætur undan pressunni og stofnar loksins kvennalið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Manchester United. Nú fá stelpurnar tækifæri að spila fyrir félagið.
Stuðningsmaður Manchester United. Nú fá stelpurnar tækifæri að spila fyrir félagið. Vísir/Getty
Fótboltastelpur heimsins hafa hingað til geta dreymt um að spila fyrir Barcelona, Chelsea, Arsenal, Manchester City og Liverpool en aldrei fyrir Manchester United. Nú mun það breytast.

Manchester United hefur fengið á sig talverða gagnrýni undanfarin ár fyrir að vilja ekki vera með kvennalið. Nú virðast forráðamenn félagsins hafa loksins látið undan pressunni.

Manchester United hefur nú sótt um að setja á laggirnar atvinnumannalið hjá konunum. Enska sambandið mun tilkynna það í lok maí hvort liðið fá leyfið.

Manchester United hefur starfrækt unglingalið hjá stelpunum en þegar þær eldast þá hafa þær þurft að yfirgefa félagið því það var ekkert meistaraflokkslið. Þetta þótti mörgum mjög skrýtið og Manchester United hefur verið harðlega gagnrýnt.





Einn af þeim sem hefur rætt þetta mál er Phil Neville, núverandi þjálfari enska kvennalandsliðsins og fyrrum leikmaður Manchester United. Þegar hann tók við enska landsliðinu þá sagðist hann ætla að ræða málið við félagið.

Það hefur ekki minnkað pressuna á Manchester United að nágrannar þeirra í Manchester City hafa á sama tíma sett saman eitt besta kvennalið heims.

Manchester City er því með gott forskot á Manchester United í dag í kvennaboltanum en það verður fróðlegt að sjá hversu lengi og hvort það takist yfir höfuð hjá Manchester United að búa til heimsklassa kvennalið.

Nýja kvennaliðið hjá Manchester United mun hafa aðsetur á Cliff-æfingasvæðinu í Salford. Ef allt gengur eftir mun það byrja að spila í ensku B-deildinni tímabilið 2018-19.

Ed Woodward, varastjórnarformaður Manchester United, segir að kvennaliðið muni vera byggt upp af sömu gildum og karlalið félagsins. Það eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja sjá Manchester United tefla fram öflugu kvennaliði líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×