Enski boltinn

Manchester United fyrsta félagið til að ráða yfirmann hryðjuverkavarna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United er fyrsta íþróttafélagið í Englandi sem hefur ráðið sérstakan yfirmann hryðjuverkavarna í fullt starf.

United hefur nú fengið fyrrum rannsóknarlögreglumann hjá sérsveit Manchester-lögreglunnar til að sinna þessu nýja starfi hjá félaginu.

BBC segir frá því að nýi yfirmaðurinn í baráttunni við hryðjuverk hafi verið tilkynntur á almennum umræðufundi hjá félaginu á dögunum.

Þessi breyting er ein af mörgum hjá Manchester United til að bæta varnir gegn hryðjuverkum á Old Trafford leikvanginum á leikdögum.

Allir bifreiðar sem koma inn á bílastæðin tengdum vellinum þurfa nú að fara í gegnum sérstaka skoðun og þá er leitað á öllum áhorfendum þegar þeir koma inn á völlinn.

Manchester United hefur aukið mjög eftirlit og varnir gegn mögulegum hryðjuverkum eftir uppákomuna í lokaleik síðasta tímabils.

Fresta þurfti þá leik liðsins á móti Bournemouth eftir að leikvangurinn var rýmdur í kjölfarið að sprengja fannst á klósetti á vellinum. Þegar betur var að gáð kom í ljós að ekki var um alvöru sprengju að ræða.

Platsprengjan hafði gleymst á æfingu gegn mögulegum hryðjuverkum sem hafði farið fram á Old Trafford í vikunni á undan leiknum.

Ekki var það til að auka öryggi manna á Old Trafford þegar tveimur mönnum tókst í nóvember að fela sig inn á klósetti á vellinum eftir að hafa laumað sér burtu úr kynnisferð um leikvanginn.

Mennirnir ætluðu að redda sér inn á leik við Arsenal en lögreglan fann þá morguninn eftir og handtók.  Þeir fengu því ekki að sjá leikinn eftir allt saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×