Fótbolti

Man. City og Monaco buðu til markaveislu á Etihad | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester City vann Monaco, 5-3, í ótrúlegum fótboltaleik á Etihad vellinum í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Sá seinni fer fram í Mónakó 15. mars næstkomandi.

Leikurinn í kvöld var mögnuð skemmtun; bauð upp á frábær tilþrif, átta mörk og 10 gul spjöld.

Raheem Sterling kom City yfir á 26. mínútu með skoti af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Leroys Sané.

Sex mínútum síðar jafnaði Radamel Falcao metin með flugskalla eftir fyrirgjöf Fabinhos. Skömmu síðar átti Sergio Agüero að fá vítaspyrnu en spænski dómarinn Antonio Mateu Lahoz gaf honum gult spjald fyrir leikaraskap.

Þegar fimm mínútur voru til hálfleiks kom hinn 18 ára gamali Kylian Mbappé Monaco í 1-2 og þannig var staðan í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks fiskaði Falcao vítaspyrnu. Kólumbíumaðurinn fór sjálfur á punktinn en Willy Caballero varði slaka spyrnu hans.

Á 58. mínútu jafnaði Agüero metin eftir skelfileg mistök Danijels Subasic í marki Monaco. Staðan var aðeins jöfn í þrjár mínútur því á 61. mínútu vippaði Falcao boltanum glæsilega yfir Willy og kom Monaco yfir.

Agüero jafnaði í 3-3 með góðu skoti eftir hornspyrnu Davids Silva á 71. mínútu og sex mínútum síðar kom John Stones City yfir.

Það var svo Sané sem skoraði fimmta mark City og síðasta mark leiksins á 82. mínútu. Lokatölur 5-3, City í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×